Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Fáir kettir skráðir á Akureyri

22.08.2011 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Einungis 75 kettir eru á Akureyri ef marka má tölur frá Akureyrarbæ. Bæjarbúar hafa ekki verið duglegir að sækja um leyfi fyrir ketti sína en nýjar reglur um kattahald tóku gildi í vor.

Samkvæmt nýjum reglunum, sem tóku gildi um miðjan apríl, er ekki leyfilegt að halda kött á Akureyri nema að fengnu leyfi frá bænum. Að sögn Bergs Þorra Benjamínssonar hjá framkvæmdadeild Akureyrar hefur gengið illa að fá bæjarbúa til þess að skrá ketti sína.

 „Við erum komnir með innan við hundrað og hefðum viljað sjá fleiri en þeir sem hafa skráð sig á annað borð hafa bara gert það af miklum sóma.“

Bergur Þorri segir að dýralæknar áætli að um 2000 kettir séu á Akureyri en einungs hefur verið sótt um leyfi fyrir 75. Ástæðuna telur hann meðal annars vera þá að mörgum finnist dýrt að þurfa að tryggja heimilisköttinn, örmerkja hann og greiða af honum fast árgjald, sem mun að hans sögn miðast við þann kostnað sem bærinn þarf að standa straum af vegna málaflokksins. Eins kostar það 10 þúsund krónur að nýskrá kött en þeir sem skrá ketti sína fyrir 1. desember sleppa við að greiða það gjald.

 „Ef að allir væru samviskusamir í þessu og það kæmu fleiri umsóknir um þetta þá á þetta ekki að verða neinn kostnaður sem heitið getur á hvern bæjarbúa sem halda vill þessi dýr á annað borð.“