Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fáir gefið sig fram við ÖBÍ vegna gæludýra

01.07.2015 - 16:51
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Aðeins 12 manns hafa sett sig í samband við stjórn Brynju, hússjóð Öryrkjabandalags Íslands, til að fá nýtt húsnæði þar sem dýrahald er leyfilegt. Formaður Dýraverndarsambands Íslands segir þessa tölu ekki endurspegla hversu margir halda gæludýr eða vilja gera það.

Frá og með 15. maí síðastliðnum var ákveðið að framfylgja eldri reglum sem banna gæludýrahaldi í íbúðum Brynju. Gæludýraeigendur mótmæltu harðlega og ákveðið var að koma til móts við þá með því að finna þeim nýtt húsnæði þar sem dýrahald væri leyfilegt.

„Við vissum í rauninni ekkert fjöldann,“ segir Björn Arnar Magnússon framkvæmdastjóri Brynju. „Það hafi ekki verið kannað hversu margir gæludýraeigendurnir væru.“

Fjöldinn endurspegli ekki dýrahald almennt
Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands segir: „Í rannsókn MMR frá því í apríl, kom fram að á um 40% íslenskra heimila eru haldin gæludýr.“

Hún segir Brynju eiga rúmlega 700 íbúðir. „Ef húsnæði í eigu Brynju endurspeglar íslenskt samfélag, þýðir það að í um 280 af íbúðum þeirra væru gæludýr eða fólk sem hefði áhuga á dýrahaldi,“ segir Hallgerður. 

Hún hvetur fólk til að hafa samband við Brynju og láta í ljós vilja sinn til að hafa dýr.

Mögulegt að ekki allir gæludýraeigendur séu búnir að hafa samband
„Það er alltaf einhver sem er ekki búinn að hafa samband," segir Björn. „Það er tekið vel á móti öllum." Hann segir að unnið sé í samráði við hvern og einn.

„Öryrkjar eru oft ekki inni í málunum og treysta sér jafnvel ekki í formlega samtalið,“ segir Hallgerður. Þeir þurfi að vera duglegir við að hafa frumkvæði um að réttindi þeirra séu virt.

Hún hvetur öryrkja til að eiga þetta samtal. Einnig hvetur Hallgerður aðstandendur, ættingja og vini öryrkja, til að hafa samband við Brynju og aðstoða ásamt því að lýsa reynslu sinni af því hversu auðgandi dýr séu í lífi fólks. 

„Eitt af markmiðum okkar er að það sé oftar gert ráð fyrir dýrum í samfélaginu," segir Hallgerður. „Við erum langt, langt á eftir samfélögum sem við viljum gjarnan miða okkur við, hvað þetta varðar." Þetta segir hún bæði eiga við um húsnæði og samgöngur.

Bara lítill hluti fólks sem dýraofnæmi
„Eftir að ný lög um dýrahald í fjöleignarhúsum voru sett árið 1994, þar sem dýraofnæmi var skilgreint sem frágangssök um búsetu, þá jókst tíðni ofnæmis langt umfram það sem það er hjá öðrum þjóðum,“ segir Hallgerður. Lögunum hafi verið breytt árið 2011. „Nú þarf samþykki tveggja þriðju íbúa til að það megi halda gæludýr.“

Hallgerður segir að rannsóknir sýni fram að um 6% þjóðarinnar sé með gæludýraofnæmi og að flestir þeirra geti haft stjórn á því með lyfjum.

„Ofnæmi eldist líka af fólki," segir Hallgerður. „Og kemur síður upp ef börn alast upp með dýrum.“

„Við ætlum að fylgja þessu eftir,“ segir hún. „Afla betri gagna og taka samtalið. Þetta er ekki búið.“