Fagnar því að vera svartur

Mynd: Rúv / Logi Pedro

Fagnar því að vera svartur

24.09.2018 - 16:34
Mánudagsgestur vikunnar er tónlistarmaðurinn Logi Pedro sem gaf á dögunum út tvö lög, Fuðri upp og Reykjavík undir yfirskriftinni Fagri Blakkur. Logi hefur komið víða við en hann hefur nú starfað sem tónlistarmaður í 10 ár.

Logi var tveggja að verða þriggja ára þegar hann kom til Íslands frá Portúgal ásamt fjölskyldu sinni í sumarfrí. Móðir Loga veiktist á leiðinni, bæði nýrun hættu að virka sem gerði það að verkum að þau urðu eftir á Íslandi og hafa verið hér síðan.

Margbreytileiki

Logi sem á ættir að rekja til Afríku og Íslands segir að hann sé miklu íslenskari en afrískur þrátt fyrir að líta út fyrir að vera afrískari en íslenskur. Hann leggur áherslu á að við séum ekki öll eins og fagnar margbreytileikanum. Fjölskyldan fluttist miðsvæðis og gengu bræðurnir Unnsteinn og Logi í Austurbæjarskóla þar sem þéttur vinahópur skapaði sinn eigin heim.

Logi var sendur í tónlistarskóla sem barn en lagði fyrir sig bassann þegar Jóhann Kristófer mætti ekki á hljómsveitaræfingu þegar þeir voru yngri. Þrátt fyrir að hann hafi spilað á bassa, gítar og fleiri hljóðfæri gegnum tíðina lítur hann ekki á sig sem hljóðfæraleikara heldur lagahöfund. Síðustu 10 ár hefur Logi starfað sem tónlistarmaður. Hann hefur spilað á menntaskólaböllum öll þessi ár. Hann segir margt hafa breyst. Allt frá því þegar nýbúið að banna reykingar á menntaskólaböllum.

Pólitískur

Hann segist ekki hafa alist upp með mikla peninga milli handanna. Þó hann hafi kannski ekki alist upp við fátækt þá finnst honum hann skilja hugtakið, eymdina og vonleysið. Logi bætir við að Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur setið hvað lengst við völd hafi ekki gert neitt í fátækt. Að það sé fólk sem hafi það ekki gott heldur glatað og það tali enginn þeirra máli en Sjálfstæðisflokkurinn segi alltaf „af hverju er enginn að tala um hvað við höfum það gott.”

Allt breyttist

Fyrir tæpu ári síðan varð Logi faðir. Hann segir það hafa breytt öllu. Að bera ábyrgð á lítilli manneskju og gera allt svo hún upplifi öryggi, gleði og ást. Hann segir það þó ekki vera auðvelt. Seinna lagið, Reykjavík, á plötunni Fagra blakki er óður til sonar hans.

„Stundum er þetta erfitt en við verðum bara að halda áfram og líta á björtu hliðarnar.“