Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fagnar staðfestingu á byggingu nýs Landspítala

06.04.2018 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forstjóri Landspítalans segir erfitt að átta sig á hversu mikið fari til daglegs reksturs sjúkrahússins miðað við fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hann fagnar því að gert sé ráð fyrir byggingu nýs Landspítala við Hringbraut, en hefði viljað fá meira fé til málaflokksins.

Bygging nýs Landspítala við Hringbraut hefst 2019

Samkvæmt áætluninni hefjast framkvæmdir við byggingu nýs Landspítala við Hringbraut á næsta ári, en meginþungi framkvæmdanna verður árin 2020 til 23. Alls er gert ráð fyrir tæplega 75 milljarða króna aukningu til sjúkrahússþjónustu næstu fimm árin, en stærstur hluti þeirra fjárhæðar fer í byggingaframkvæmdirnar. Rúmir fjórir milljarðar af þessum 75 fara í átak til að stytta biðlista eftir tilteknum aðgerðum. Þá er gert ráð fyrir að fjölga starfsfólki sjúkrahúsa, og ráðist verður í framkvæmdir við sjúkrahússtofnanir á landsbyggðinni.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir erfitt að segja til um hvað áætlunin kemur til með að þýða fyrir daglegan rekstur spítalans. „Það er ánægjulegt að sjá að áform um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut eru áfram staðfest,“ segir Páll. „Hvað fjármálaáætlunina að öðru leyti varðar, þá er erfitt að átta sig á inntaki hennar fyrir Landspítala og rekstrarumhverfi næstu ára. Það er ekki greint með skýrum hætti milli rekstrar og fjárfestingar, en almennu markmiðin virðast samt vera þau að bæta rekstrarumhverfi sjúkrahúsa, sem að hlýtur að vera fagnaðarefni.“

Hann segist þó hafa vilja sjá meira fjármagn fara til sjúkrahúsþjónustu. „Í mikilvægum málaflokkum sem lúta að almannahagsmunum og innviðum þá er mikilvægt að fá þar inn sem mest fé, og við hefðum viljað sjá meira fé þarna,“ segir Páll. „Maður hefur alltaf áhyggjur af fjármögnun, því að hún er viðkvæm, og sívaxandi álag á heilbrigðiskerfið kallar á að það sé gert ráð fyrir auknum kostnaði.“

5,5 milljarðar aukalega á ári til samgöngumála

Vegagerðin fagnar fjárveitingum til vegagerðar í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Í skriflegu svari til fréttastofu segir að það átak sem boðað sé í fjármálaáætluninni nái væntanlega bæði til nýframkvæmda og viðhalds vega sem séu mjög jákvæðar fréttir. Viðhald vegakerfisins sé ekki síður mikilvægt en nýframkvæmdir og viðhaldsþörfin mikil. Samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var í vikunni, bætast við sérstök 5,5 milljarða fjárframlög til samgöngu- og fjarskiptamála, á árunum 2019 til 2021.