Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fagnar niðurstöðunni í Skotlandi

19.09.2014 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Viðbrögð Davids Camerons í morgun snerust ekki aðeins um Skotland, heldur einnig aðra hluta breska konungsdæmisins, eins og Wales, sem eiga einnig að fá aukin völd. Lafði Rosemary Butler, forseti velska þjóðþingsins sem staddur er hér á landi fagnar þessum áformum.

Velska þingið var sett á laggirnar árið 1999 og hefur takmarkaðar heimildir til lagasetningar, en lítil sem engin völd yfir fjármálum eða skattheimtu, þótt slíkar tillögur hafi verið ræddar.

Lafði Rosemary Butler, forseti þingsins, er stödd hér á landi þessa dagana ásamt sendinefnd þingmanna frá Wales. Hún segist ánægð með niðurstöðuna í Skotlandi í gær. Hún segist telja að breska konungdæmið sé sterkara í heilu lagi; hefði Skotland kosið sjálfstæði hefði það haft miklar afleiðingar. Bresk stjórnmál verði hins vegar ekki söm eftir þetta; það verð miklar breytingar sem munu hafa áhrif í Wales rétt eins og annars staðar í breska konungdæminu.

Cameron tiltók reyndar Wales sérstaklega í ávarpi sínu í morgun og sagði að það gæti orðið fyrirmynd þeirra breytinga sem væru í vændum. Butler segir mikilvægt að þær breytingar verði undirbúnar vel og vandlega, til dæmis með því að halda sérstakt stjórnarskrárþing í Bretlandi. Hún segir að aukin valddreifing sé af hinu góða og muni hafa víðtækar afleiðingar. 

Butler segist viss um að svo verði. Það verði að líta á lagasetninguna og hvernig ákvarðanir séu teknar: „Valdreifingin er auðvitað í þróun; við höfum haft ákveðin völd í okkar þingi frá 1999 og þau völd hafa verið að aukast. Núna eigum við eftir að sjá hvernig þetta þróast, hvort við fáum að ráða yfir fjármálum, skattheimtu og öðrum málefnum - þetta eru mjög spennandi tíma".