Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fagnar hugmyndum um fyrirtækjaskrá á Tortóla

03.05.2018 - 16:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson - RÚV
„Þetta eru góðar fréttir,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri um fyrirhugaðar aðgerðir breskra stjórnvalda um að gera stjórnvöldum á breskum yfirráðasvæðum skylt að birta opinbera skráningu um eignarhald fyrirtækja.

Breska blaðið Guardian greindi frá því að meirihluti hefði myndast á breska þinginu, með stuðningi Íhaldsflokksins, um að ráðast í þessar breytingar og í raun þvinga stjórnvöld á aflandssvæðum að birta gögn.

Lykilatriði fyrir skattinn

Bryndís segir aukið gagnsæi skipti miklu. „Allt sem lýtur að auknu gagnsæi hvort heldur varðar eignarhald á félögum eða fjármagnstilfærslum er lykilatriði í baráttu yfirvalda gegn skattsvikum,“ segir hún.

Bresku jómfrúareyjarnar, og þá Tortóla sérstaklega, eru alþekktar í íslenskri umræðu í kjölfar hrunsins og vegna birtingu Panamaskjalanna árið 2016. Bryndís segir að eyjarnar séu það svæði sem mest hefur komið við sögu hjá embættinu vegna rannsókna þess á skattaskjólum og gegndi aðalhlutverki í Panamagögnunum í málum er varða íslenska skattþegna.

Strámenn skráðir fyrir félögum

Bryndís segir að embættið hafi fengið upplýsingar frá yfirvöldum á eyjunum en þar hafi vandkvæðin verið þau að sjaldnast hafa þau gögn haft þýðingu vegna þess að á eyjunum hafi ekki verið gerð krafa um að fyrir liggi í opinberum skrám upplýsingar um raunverulega eigendur félaga.

„Heldur hafa svonefndir „strámenn“ verið skráðir þar að nafninu til og þeir sömu oft á tíðum í tugum eða hundruðum félaga,“ segir hún.

Eins og afhjúpað var í Panamaskjölunum voru það einna helst þau George Allen, Jaqueline Alexander, Marta Edghill og Carmen Wong sem voru skráðir stjórnendur og fyrirsvarsmenn fyrirtækja sem í raun voru í eigu Íslendinga á Tortóla.

Leynilegir samningar við eigendur

Raunverulegir eigendur fari svo með völdin í gegnum leynilega samninga. „Baksamningar hafi svo verið gerði við raunverulega eigendur um stjórnun þeirra og eignarhald á félögunum, sem voru þau gögn og upplýsingar sem Panamalekinn ljóstraði upp um,“ segir Bryndís. 

„Það er því fagnaðarefni ef þetta skref verður tekið og er enn eitt dæmið um þann þrýsting sem ríki heims beita til að uppræta hin svonefndu skattaskjól. Ég sé fyrir að ef þessu verði muni þetta fyrst og fremst hafa þýðingu til framtíðar litið,“ segir skattrannsóknarstjóri.

adalsteinnk's picture
Aðalsteinn Kjartansson
Fréttastofa RÚV