Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fagna tillögum heilbrigðisráðherra

02.12.2017 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Geðheilbrigðisþjónustu fyrir fullorðna á heilsugæslu er verulega ábótavant og nauðsynlegt að auka fjármagn til þess að bæta það. Stjórnendur heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fagna því fyrirætlunum nýrrar ríkisstjórnar. Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir að íslenskt heilbrigðiskerfi eigi að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Heilbrigðisstefna Íslands verði fullunnin og heilsugæslan verði efld sem fyrsti viðkomustaður notenda.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist þegar hafa komið með breytingatillögur við fjárlagafrumvarp þar sem fjármagn til heilsugæslu og spítala sé stóraukið.

Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri lækninga á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir þetta mikil gleðitíðindi. „Það má segja að frá hruni þá hafa fjárveitingar til heilsugæslunnar ekki aukist, það er mikilvægt fyrir okkur til að tryggja áframhaldandi heilsugæsluþjónustu að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu að fjármagnið sé af því magni að það dugi til þeirrar þjónustu,“ segir hann.

Vel hafi gengið að auka geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn en nú sé mesta þörfin að bæta slíka þjónustu fyrir fullorðna. Þá sé einnig mikilvægt að leggja meira fjármagn í svokallað greiðslulíkan. 

„Þau hverfi þar sem félagsleg vandamál eru meiri þau fá meira fjármagn til sinnar heilsugæslu. Þetta er svona dæmi um aðferð til að koma fjármagninu út á þá staði þar sem mest þörf er fyrir fjármagn, því auðvitað viljum við sinna þeim sem eru veikastir mest og best og þeir sem eru minna veikir þeir þurfa síður á þjónustunni að halda,“ segir Óskar.

Ekki hefur verið gefið upp hversu mikil aukning á fjármagni hefur verið lagt til af heilbrigðisráðherra. Óskar segist vera bjartsýnn á komandi tíma. „Við sem vinnum hér teljum að það gæti verið að til þess að fá draumsýnina uppfyllta þá þyrfti kannski 30% meira fjármagn, en auðvitað er hvert stig sem farið er áfram til þess að tryggja betri þjónustu alltaf til bóta,“ segir Óskar.

 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV