Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fagna arfleifð Joy Division og New Order

Mynd: wikimedia commons / wikimedia commons

Fagna arfleifð Joy Division og New Order

30.06.2017 - 17:03

Höfundar

Þann 30. júní opnar listasýningin True Faith í Manchester á Englandi, en hún er tileinkuð sögu og arfleifð hljómsveitanna Joy Division og New Order.

Nafn sýningarinnar, True Faith eða hin einlæga trú, vísar í samnefnt lag síðarnefndu hljómsveitarinnar.

Ian Curtis, söngvari Joy Division, stytti sér aldur árið 1980, aðeins 23 ára að aldri, en meðlimir sveitarinnar héldu áfram að spila undir nafninu New Order - ný uppröðun og nýtt upphaf af sömu rót. Sýningin í listasafninu Manchester er undir stjórn þeirra Matthew Higgs and Jon Savage og eru öll listaverkin innblásin af tónlist og ímynd hljómsveitanna tveggja á einn eða annan hátt og skoða sjónrænar hliðar þeirra.

Minnisvarði um „síð-pönkið“

Á sýningunni er meðal annars að finna gömul plötuumslög, upptökur af tónleikum, myndbönd, veggspjöld og önnur tengd listaverk frá hinum ýmsu tímum, allt til dagsins í dag. Eitt veggspjaldið er auglýsing fyrir tónleika Joy Division ásamt fleirum á Staðnum Factory Club í júní 1978, eða fyrir hartnær 40 árum. Factory varð síðar nafn plötuútgáfunnar sem gaf sveitina út. Hönnun veggspjaldsins er módernísk og einföld, litanotkun og leturgerð þótti djörf og efst má sjá mynd af andliti sem stingur fingrum í eyrun og fyrir neðan standa viðvörunarorð: „Notið heyrnarhlífar.“

Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia commons
Olíumálverk Henri Fantin-Latour, Blómakarfan.

Þar er einnig að finna olíumálverk franska myndlistarmannsins Henri Fantin-Latour, Blómakarfan, en málverkið prýðir umslag annarrar plötu New Order, Power Corruption & Lies. Einnig eru mynbönd og ljósmyndir sem bandaríski listamaðurinn Slater B. Bradley setti saman fyrir sýningu sína, Factory Icon, þar sem meðal annars er að finna ljósmyndir af tvíförum þriggja tónlistarmanna sem allir dóu ungir; Kurt Cobain, Michael Jackson og Ian Curtis úr Joy Division og bregða þeir sér í gervi listamannanna.

Sýningin True Faith er allt í senn minnisvarði um tónlistarmenn, hönnuði, plötuútgáfu, innblástur og áhrif og þá menningarlegu stöðu sem list tekur sér stundum á óútskýranlegan hátt.

Sex Pistols tónleikarnir sem breyttu öllu

Eftir tónleika pönkhljómsveitarinnar Sex Pistols á tónleikastaðnum Free Trade Hall í Manchester árið 1976 ákváðu skólabræðurnir Bernard Sumner og Peter Hook að stofna hljómsveit. Ian Curtis var einnig á þessum tónleikum og bauðst til þess að syngja og skrifa texta. Eftir nokkra leit fundu þeir svo trommuleikarann Stephen Morris og nefndist hljómsveitin Warsaw. Fleiri urðu fyrir miklum áhrifum tónleika Sex Pistols. Steven Patrick Morrissey var á tónleikunum, sem síðar stofnaði hljómsveitina The Smiths ásamt Johnny Marr. Mark E Smith, aðalsprauta The Fall, var þegar farinn að gera tónlist 1976 en líklegt að hann hafi heillast af strákunum í Free Trade Hall.

Mynd með færslu
 Mynd: Arne S. Nielsen - Riksarkivet
Sex Pistols á sviði.

Warsaw teygðu vel úr því sem kallaðist pönk tónlist þess tíma og urðu frumkvöðlar í því sem síðar var kallað post-punk. Nafni sveitarinnar var snemma breytt í Joy Division sem vísar í skáldsöguna House of Dolls, Dúkkuhúsið eftir Yehiel De-Nur, frá 1955. Þar segir meðal annars frá hópum gyðingakvenna í fangabúðum nasista í síðari heimsstyrjöld sem notaðar voru sem kynlífsþrælar af þýskum hermönnum og voru kallaðar Joy Divisions eða Gleðideildirnar. Ekki sérlega upplífgandi nafn á hljómsveit en þó afar einkennandi að mörgu leyti. Tónlist Joy Division var oft og tíðum hressileg, hröð og drífandi en á bak við það voru drungalegir undirtónar og melankólískir textar. Tvær ólíkar tilfinningar sem mætast í hinu íróníska nafni, Joy Division.

Ian Curtis og sjálfsmorðsbréf í plötuformi

Ævi Ians Curtis var stutt en áhrif hans og hljómsveitar hans eru afar mikil eins og sýningin True Faith sýnir. Árið 1979 var Ian greindur með flogaveiki sem fór stöðugt versnandi og sagðist hann ekki geta haldið áfram að koma fram með hljómsveitinni. Við upptökur annarrar plötu sveitarinnar, Closer, ári eftir þá fyrstu, Unknown Pleasures, voru flogakostin orðin tíðari og alvarlegri. Tveimur mánuðum fyrir útgáfu Closer og 24 ára afmæli Ians, í júlí 1980, stóð hann í skilnaði við konuna sína, Deboruh Woodruff, en þau höfðu gengið í það heilaga árið 1975 aðeins 18 og 19 ára gömul. Eitt kvöld í maí bað Ian hana um að gista hjá foreldrum sínum og eyddi kvöldinu einn heima, horfði á kvikmynd Werners Herzog, Stroszek og hlustaði á plötuna The idiot með Iggy Pop áður en hann stytti sér aldur í eldhúsinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Remko Hoving - Flickr.com
Ian Curtis, söngvari Joy Division.

Þótt Ian Curtis hafi skilið eftir bréf til konunnar sinnar má segja að hið eiginlega sjálfsmorðsbréf hans hafi verið sjálf lokaplatan, Closer. Nafn plötunnar gæti útlagst á íslensku sem Nærri. Dauðinn nálgast. Hann er nærri. Lögin á plötunni fjalla um firringu, einangrun og einmanaleika og á umslagi plötunnar, sem hafði verið valið áður en Ian lést, er ljósmynd eftir Bernard Pierre Wolff og er af gröf Appiani fjölskyldunnar í Genoa á Ítalíu. Dauðinn nálgast. Hann var yfirvofandi. En enginn hlustaði.

Þegar Tony Wilson, eigandi Factory plötuútgáfunnar tilkynnti Peter Saville, öðrum hönnuði plötuumslagsins, um dauða Ians, var það fyrsta sem hann sagði: Tony, það er gröf á umslaginu.

Á umslag plötunnar Closer má sjá gröf Appiani fjölskyldunnar í Genoa á Ítalíu.

Dauðinn nálgaðist og svo kom hann. Eftir fráfall Ians héldu meðlimir Joy Division ótrauðir áfram undir nýju nafni, New Order. Þeir héldu áfram að kanna slóðir melankólíska poppsins og færðu sig í auknu mæli yfir í raftónlist. Nýja upphafið hélt stöðugt í minningu Ian Curtis og goðsögn þessa tímabils varir enn. Sýningin True Faith, Einlæg trú, í Manchester sýnir skýrt að listin og myndirnar sem Manchester-strákarnir skilja eftir sig hafa enn merkingu í dag og eiga í sterku samtali við menninguna. Sýningin er einnig minnisvarði um það hvernig tónlist hefur áhrif á allt í kringum sig, áhorfendur, listamenn, hönnuði, alla þá sem finna merkingu í tónlistinni sem teygir sig fram í söguna. Það er eitthvað stórkostlegt við það þegar listin finnur nýjan  farveg, verður að goðsögn og heldur áfram í fullkomlega einlægri trú.