Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fágæt hvalategund á Skjálfandaflóa

11.07.2013 - 12:52
Hvalur sem hugsanlega er talinn blendingur steypireyðar og langreyðar hefur sést á Skjálfandaflóa undanfarið. Freista á þess einhvern næstu daga að taka sýni úr hvalnum til að staðfesta hvort um blending er að ræða.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi einkennilegi hvalur sést á Skjálfandaflóa, því hvalaskoðunarmenn á Húsavík telja sig hafa séð hann á flóanum fyrir tveimur árum. Stærð og litur hvalsins bendir til að þarna sé steypireyður á ferðinni en bakugginn er eins og á langreyði. Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, segir að bæði geti verið um að ræða steypireyði eða langreyði, en miðað við útlit hvalsins sé freistandi að álykta að þetta sé blendingur af þessu tvennu. 

„Ástæða þess að okkur grunar þetta er að við höfum nú þegar fjögur staðfest dæmi um kynblendinga af langreyði og steypireyði við Íslandsstrendur og það var reyndar í fyrsta sinn sem sýnt var fram á slíkt í heiminum 1986, þegar við fundum þann fyrsta. Þetta dýr hefur dálítið svipmót af þessum fjórum sem við þekkjum nú þegar og þess vegna grunar okkur að hér sé um að ræða einn í viðbót“, segir Gísli. 

Til að staðfesta að svo sé, segir hann nauðsynlegt að ná húðsýni úr dýrinu, en það er gert með því að skjóta í það sérútbúinni ör. Hann segir leiðangur í bígerð um að setja gervihnattamerki á steypireyði og til standi að taka húðsýni úr þessu dýri í leiðinni.