Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Færri íslensk börn glíma við offitu

04.06.2012 - 19:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Ný rannsókn bendir til þess að færri íslensk börn glími nú við offitu en áður. Finnskur prófessor í næringarfræði segir að ofþyngd megi að hluta rekja til markaðsetningar á mat.

Rannsóknarstofa í næringarfræði hefur fylgst með börnum af öllu landinu, fæddum 1995-97 og börnum fæddum 2005, frá fæðingu til sex ára aldurs. Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, segir að í fyrri rannsókn hafi sést að lengri brjóstagjöf og lægri prótínneysla geti verið verndandi gegn offitu, sérstaklega á meðal drengja. 

Árið 2003 voru kynntar nýjar ráðleggingar um mataræði ungbarna á Íslandi, þar sem áhersla var lögð á brjóstagjöf, svo stoðmjólk en minni mjólkurneyslu en áður. Tíðni ofþyngdar var 20 prósent í fyrri rannsókninni en 10 prósent í þeirri seinni. Börn sem fengu meira prótín voru þyngri.

„Ofsalega mikil áhersla er á prótín, það eru allir að tala um prótín, það eru allir á prótínum, og það er margt sem bendir til þess að það geti hreinlega verið skaðlegt ef við yfirfærum þessa miklu prótínáherslu yfir á yngstu börnin okkar," segir Ingibjörg. 

Fólk er þyngra nú en áður vegna þess að vinna og frítími krefst minni hreyfingar og svo borðar fólk einfaldlega meira. Mikael Fogelholm, prófessor við Háskólann í Helsinki, segir að ástæðan sé trúlega sú að matur og át sé markaðssett með miklu öflugri hætti en áður, matvælaiðnaðurinn gangi út á sömu hugsun og annar iðnaður, að hann þurfi að vaxa.