Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Færri hvorki í vinnu né námi á Íslandi

02.05.2019 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Hvergi annars staðar á Norðurlöndum er hlutfall ungs fólks sem hvorki er í vinnu né námi eða starfsnámi jafn lágt og hér á landi. Nokkuð fleiri drengir en stúlkur hætta í námi í framhaldsskóla en hlutfall þeirra sem hætta námi var nokkuð stöðugt árin 2003-2012. Þetta kemur fram í svari Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur þingkonu Samfylkingarinnar.

Í svari ráðherra koma fram upplýsingar um þrenns konar gerðir brottfalls úr framhaldsskólum: Kyngreint árgangsbrotthvarf árin 2003-2012, árlegt brotthvarf nýnemaárganga 2010-2017 og snemmbært brotthvarf nema á aldrinum 18-24 ára. Auk þess kemur fram hlutfall ungs fólks á aldrinum 18-24 ára sem er hvorki í vinnu né í námi eða starfsþjálfun.

Árgangsbrotthvarf nema sem höfðu hætt námi á árunum 2003-2012 var nokkuð stöðugt en 27 prósent þeirra hættu námi fjórum árum eftir upphaf þess. Af þessum hópi er 31 prósent drengir og 23 prósent stúlkur.

Þegar árlegt brotthvarf er metið er athugað hvort nemandi er skráður til náms við framhaldsskóla haustið eftir að nám hófst. Brotthvarf nýnema var kringum sjö prósent frá skólaárinu 2010-2011 til skólaársins 2017-2018. Brotthvarfið var nokkru minna en frá skólaárinu 2002-2003 til skólaársins 2004-2005 en þá var árlegt brotthvarf nemenda 11,5 prósent.

Í svari ráðherra segir að margir þættir hafi áhrif á brotthvarf úr námi, til að mynda námsárangur, hegðun, líðan, viðhorf og skuldbinding, bakgrunnur, stuðningur fjölskyldu og utanumhald skóla.

Þegar snemmbært brottfall er metið er athugað hlutfall fólks á aldrinum 18-24 ára sem ekki hefur lokið prófi á framhaldsskólastigi og er ekki skráð í nám eða starfsþjálfun. Það var 17,8 prósent árið 2017. Mikill munur er á milli kynja hvað þetta varðar, 22,5 prósent karla hætta snemma í námi en einungis 12,7 prósent kvenna.

4,1 prósent fólks á aldrinum 18-24 var hvorki í vinnu né í námi eða starfsþjálfun árið 2017. 4,5 prósent voru karlar en 3,7 prósent konur. Hvergi annars staðar á Norðulöndum var hlutfallið jafn lágt. Fækkað hefur í þessum hópi frá því sem mest var árið 2014 en þá voru 6,9 prósent fólks á aldrinum 18-24 ára hvorki í vinnu né námi.