Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Færri húnar fæðast á Svalbarða

29.05.2014 - 02:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Vísindamenn við Norsku heimskautastofnunina (Norsk Polarinstitutt) hafa áhyggjur af því að æ færri ísbjarnarhúnar fæðast á Svalbarða. Í nýrri rannsókn sem framkvæmd var í apríl var hlutfall birna sem gengu með nýfædda húna aðeins 10 prósent.

Það er einmitt í apríl sem ísbirnir koma úr híði sínu eftir vetursetu. Á síðustu árum hefur hlutfall birna sem ganga með húna verið um 30 prósent, sem er þó talsvert lægra hlutfall en mældist yfirleitt á 10. áratug síðustu aldar. Þá var hlutfallið um 50 prósent. Jan Aars stýrði rannsókninni. Hann segir hlutfallið mun lægra en búist hafði verið við. „Ef til er hlutfallið svona lágt því veður hefur verið milt, sem þýðir að ísbreiðan fer hverfandi eða ef til vill var þetta bara slæmt ár.“

Aars segir of snemmt að koma með dómdagsspár fyrir hönd ísbjarna á Svalbarða. „Það vekur ugg hve lágt hlutfallið er, en við verðum að fara gætilega. Haldi þessi þróun áfram er hins vegar ástæða til að hafa áhyggjur.“

Aars bendir á, að þrátt fyrir þetta lága hlutfall sé næstum öruggt að ísbjarnastofninn á Svalbarða sé í það minnsta í betra ástandi núna en árið 1973, þegar ísbjarnaveiðar voru bannaðar. Fram að því hafði stofninn verið allt að því þurrkaður út. Heildarstofninn á Svalbarða telji líklega á bilinu 1900 til 2600 dýr.