Færri hljóta örorku vegna stoðkerfissjúkdóma

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Færri hafa hlotið örorku vegna stoðkerfissjúkdóma það sem af er þessu ári en undanfarin ár. Formaður Öryrkjabandalags Íslands, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, telur að þróunina megi rekja til þess að nú þarf fólk að greiða minna fyrir tíma hjá sjúkraþjálfara.

Stoðkerfissjúkdómar hafa í 21 prósenti tilvika verið örsök örorku fólks, það sem af er þessu ári. Það er umtalsvert minna en undanfarin ár. Í fyrra var hlutfallið tæp 26 prósent og árið 2015 var það rúmt 31 prósent. Síðasta áratuginn hefur hlutfallið aldrei verið eins lágt og í ár. 273 einstaklingar hafa hlotið örorku vegna stoðkerfisvanda á þessu ári. Allt árið í fyrra var fjöldinn 389. Árið 2016 var fjöldinn 515.

Nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir þjónustu sjúkraþjálfara tók gildi fyrir rúmu ári og tekur ríkið nú meiri þátt í kostnaði. Síðan þá hafa fleiri nýtt sér þjónustu sjúkraþjálfara. 

„Þetta náttúrulega virkar fyrirbyggjandi og fólk getur þá verið lengur á vinnumarkaði. Ég veit um mörg, mörg dæmi þess að fólk einmitt heldur sér við í sjúkraþjálfun. Þegar hún er svo dýr að fólk getur ekki veitt sér hana þá núttúrulega segir það sig sjálft að þá er fólk ekki að mæta og er alla vega ekki að kaupa tíma hjá sjúkraþjálfara. Þá endar þetta náttúrulega með því að fólk gefst upp í vinnunni,“ segir hún.

Þuríður nefnir sem dæmi að hún hafi heyrt af mörgum gigtarsjúklingum sem fagni þessum breytingum. Kerfið er þó ekki gallalaust að hennar mati. Örorkulífeyrisþegar þurfi enn að greiða of hátt hlutfall af kostnaði við þjónustu sjúkraþjálfara. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi