Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Færri hljóta örorku eftir aukna niðurgreiðslu

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Hægt er að færa rök fyrir því að færri hljóti örorku vegna stoðkerfisvanda eftir aukna greiðsluþátttöku ríkisins við sjúkraþjálfun, að sögn Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Færri hafa hlotið örorku vegna stoðkerfissjúkdóma á þessu ári en undanfarin tíu ár.

Kostnaðarþátttaka ríkisins í þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara var aukin í fyrra og nýttu fleiri sér þjónustuna. Á sama tíma hefur hlutfall þeirra sem hljóta örorku vegna stoðkerfissjúkdóma lækkað töluvert.

Stoðkerfissjúkdómar hafa verið orsök örorku í 21 prósenti tilvika, það sem af er þessu ári. Í fyrra var hlutfallið tæp 26 prósent og árið 2015 var það tæp 32 prósent. Ef litið er til hlutfallsins undanfarinn áratug hefur það aldrei verið lægra en nú. Getum við dregið þá ályktun að það séu tengsl þarna á milli?

„Það er hægt að færa fyrir því rök og það eru til rannsóknir erlendis frá sem sýna að það séu tengsl þar á milli. Það þarf að skoða betur hér heima hver þau tengsl eru,“ segir Rúnar.

 

Samkvæmt þessu er líklegt að árangur hafi náðst við að draga úr nýgengi örorku vegna stoðkerfissjúkdóma. Skerðingar setja þó strik í reikninginn hjá fólki sem komið er á örorku en nær upp starfsgetu og vill komast aftur á vinnumarkað.

„Varðandi sjúkraþjálfunina sérstaklega þá má segja að hún geti haft áhrif á fjölgun nýrra örorkulífeyrisþega en varðandi síðan hinn endann á örorkulífeyriskerfinu, það er að segja hvernig fólk kemst út úr kerfinu þá koma fleiri þættir til og sérstaklega nefni ég þá samspil bótakerfisins og tekna og þar er mikið rætt einmitt um það að einstaklingar séu fastir í þessu kerfi vegna hárra skerðinga sem að ég tel að sé verulegt vandamál hjá okkur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild HÍ.

Verulegt gagn er af sjúkraþjálfun á stofu fyrir ákveðna hópa, að dómi Rúnars. „Það gildir þá sérstaklega um þá sem ekki eru með mjög flókin eða fjölþætt vandamál, tengd stoðkerfi og öðrum líkamshlutum, má segja, eða kerfum. Fyrir þá einstaklinga sem eru veikari og þurfa fjölþættari þjónustu þá má færa rök fyrir því að það sé hagstætt að veita þá þjónustu í stærra samhengi innan heilbrigðisstofnana.“