Færri flugferðir hærri fargjöld

28.04.2017 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: rúv - rúv
Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor segir að ef reynt yrði að hægja á uppsveiflu í ferðaþjónustunni með því að takmarka lendingarpláss á Keflavíkurflugvelli kæmi það fram í hærri flugfargjöldum. Komugjald hefði sömu áhrif.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna væri ætlað að stemma stigu við fjölgun ferðamanna á Íslandi. Hraður vöxtur hennar væri farinn hafa veruleg áhrif á allt hagkerfið.

Gylfi segir að mikilvægt sé að búa vel að ferðaþjónustunni svo hún geti þrifist vel til framtíðar. „En til skamms tíma þá er vandinn sá að þegar hún vex svona hratt þá hækkar gengi krónunnar og vegna þess að sparnaður heimila hefur aukist samhliða þá er fólk ekki að eyða öllum þessum gjaldeyri sem kemur inn, sem verður til þess að krónan hækkar.“

Hækkun krónunnar sé góð fyrir almenning en slæm fyrir aðrar útflutningsgreinar og tæknigreinar og líka fyrirtæki í ferðaþjónustunni. Hagnaður fyrirtækjanna minnki því fleiri sem eru í ferðaþjónustunni. Ef ekkert er gert hægi hátt gengi og háir vextir á þessum vexti. 

Aðrar aðferðir ekki betri

Hægt er að stemma stigu við streymi ferðamanna til landsins með því að takmarka lendingapláss á Keflavíkurflugvelli, setja komugjald eða skatt á gistinætur. 
 
„Ef t.d. lendingaplássum á Keflavíkurflugvelli fjölgaði ekki jafnmikið og þeim hefur gert á hverju ári þá myndi framboð á flugsætum til Íslands minnka, sem myndi væntanlega valda því að flugfargjöld myndu hækka svo þá kemur það fram í hærri flugfargjöldum í stað hærri virðisaukaskatti.“

Gylfi segir að ef stæðum væri skammtað á Keflavíkurflugvelli hefðu þeir sem nú eiga þar stæði meiri hagnað á kostnað annarra.
 
„Svo er hægt að leggja á komugjald og það hefur sömu áhrif þá er einnig dýrara að koma til landsins. Það er hægt að leggja á skatt á gistinætur en allt hefur þetta þau áhrif að landið verður dýrara að sækja heim.“

Gylfi segir að ef gengi krónunnar fer upp úr öllu valdi þá bitni það á öðrum. Sama megi segja um háa vexti.  

„Það er betra að fara á rót uppsveiflunnar sem er í ferðaþjónustu og hægja aðeins á henni í stað þess að nota þessi grófu tæki eins og háa vexti, hátt gengi, skera niður ríkisútgjöld o.s.frv. Af öllum þessum ástæðum er það skynsamlegt að hægja á vextinum því einstök fyrirtæki munu ekki gera það í ferðaþjónustu.“
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi