Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Færeyjar: „Lífið er orðið meira spennandi“

30.08.2018 - 17:53
Færeyjar að vetrarlagi. - Mynd: CC0 / Pixabay
„Fyrir nokkrum árum fannst okkur mörgum svolítið eins og við værum ekki nógu góð og landið ekki nógu stórt en nú erum við stolt af því að vera Færeyingar.“ Þetta segir forstjóri Hugskotsins, frumkvöðlaseturs í Þórshöfn. Íbúar Færeyja hafa aldrei verið fleiri. Fæðingartíðnin hækkar og fleiri flytja heim. Það er uppgangur í efnahagslífinu og stjórnvöld hafa gripið tækifærið, ráðist í aðgerðir til að halda í unga fólkið og lokka brottflutta aftur til eyjanna. 

Íbúar Færeyja hafa aldrei nokkurn tímann verið fleiri. Það varð fólksfækkun eftir efnahagskreppuna 2008 en frá árinu 2012 hefur Færeyingum fjölgað stöðugt. Nýlega tilkynnti hagstofa Færeyja að í júlíbyrjun á þessu ári hafi Færeyingar farið yfir 51.000, nánar tiltekið í 51.043. Þeir eru tæplega tveimur prósentum fleiri en í júlí 2017. Fjölgunina má að mestu leyti rekja til þess að fleiri flytja til eyjanna en áður og færri frá þeim, raunar þarf að fara aftur til ársins 1980 til að finna minni brottflutning. Þá voru Færeyingar færri en í dag. 
Það fæðast líka fleiri en deyja. Færeyingar eru þekktir fyrir að eignast mörg börn, hver kona eignast að meðaltali 2,5.

Fleiri tækifæri

En hvers vegna flytur fólk til Færeyja? Frá árinu 2013 hefur verið uppgangur í efnahagslífinu, atvinnuleysi er lítið, námsframboð við háskólann hefur aukist og það er búið að reisa nýja nemendagarða. Nýjar atvinnugreinar sækja í sig veðrið, það er vöxtur í ferðaþjónustu og nýsköpun hefur fengið aukið vægi. Hans Pauli Strøm, sérfræðingur á Hagstofu Færeyja lýsir þessu svona í samtali við Kringvarpið, ríkisútvarp Færeyja. „Það hafa aldrei verið færri ástæður til að flytja frá Færeyjum og aldrei fleiri ástæður til að flytja til Færeyja.“ Samfélagið hafi meira aðdráttarafl en áður. Lífið í Færeyjum sé orðið meira spennandi og tækifærin fleiri.  

Fjölgar í flestum sveitarfélögum

Fólksfjölgunin er ekki bundin við Þórshöfn þó þar fjölgi langmest, um 398 milli ára. Það hefur líka fjölgað í Klakksvík. Sóley Heradóttir Hammer, forstjóri Hugskotsins, bendir á að fjarlægðir séu stuttar í Færeyjum. Það sé til dæmis vel hægt að búa í Klakksvík og vinna eða læra í Þórshöfn. Mörg minni sveitarfélög hafa líka sótt í sig veðrið. Fólki hefur fjölgað í 22 sveitarfélögum af 29, en fækkað í sjö. Hlutfallslega er fjölgunin mest í sveitarfélaginu Kunoy þar sem búa 156, um 13% en fækkunin mest í Húsavík þar sem nú búa 107, um 8,5%. Ef horft er til einstakra eyja fækkar fólki mest á eyjunni Hesti. Næstum einn af hverjum fimm sem bjó þar fyrir ári síðan er farinn. Þar bjuggu 26 en búa nú 21. Í Rúnavík og Sjógv fjölgaði um tæp 6%.

Gröf frá færeysku hagstofunni sýna þróunina: 

Mynd með færslu
 Mynd: Hagstofa Færeyja; Wikimedia Com
Mynd með færslu
 Mynd: Hagstofa Færeyja; Wikimedia Com

Á vef færeyska Kringvarpsins kemur fram að í Fuglafirði hafi fólksfjölgun ekki verið jafnmikil og í nágrannabyggðum á borð við Rúnavík og Sjóvar. Það megi meðal annars rekja til skorts á húsnæði. Þetta segir Sonni á Horni, bæjarstjóri, að hafi verið niðurstaða fundar um framtíð byggðarinnar sem haldinn var í síðustu viku. 

Skrifast fjölgunin á farandverkamenn? 

Sumir hafa velt því upp hvort hluti af skýringunni á miklum fjölda aðfluttra umfram brottflutta kunni að liggja í því að til eyjanna hafi flust farandverkamenn vegna mikllar eftirspurnar eftir starfsfólki, svo sem í byggingavinnu. Þeir fari svo aftur þegar um hægist. Hagstofan hyggst skoða þetta á næstunni. Hans Pauli Ström hjá hagstofunni segir rétt að til Færeyja hafi komið fólk til að vinna frá Póllandi, Búlgaríu og Rúmeníu, til dæmis. Á fyrri hluta þessa árs hafi um fimmtungur þeirra sem flutti til Færeyja verið þaðan. Hann telur þó að meginþorri þeirra sem flytur til landsins séu Færeyingar sem alið hafi manninn í útlöndum, fólk sem hafi farið utan til náms og komi nú aftur, kannski búið að eignast nokkur börn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hagstofa Færeyja; Wikimedia Com
Þórshöfn.

Geta lesið lögfræði 

Sóley Heradóttir Hammer, forstjóri Hugskotsins, segir ungt fólk eygja framtíð í Færeyjum í auknum mæli. Tækifærunum hafi fjölgað, bæði í námi og starfi. Í háskólanum er nú hægt að nema lögfræði, hagfræði og upplýsingatækni, það var ekki hægt áður. Námsframboð í menntaskólum er líka fjölbreyttara. Sóley segir að það sé löng hefð fyrir því að Færeyingar fari út í nám, einkum til Danmerkur. Flestum finnist mikilvægt að prófa að búa í öðru og stærra samfélagi en áður hafi fólk oft þurft að sækja alla menntunina út fyrir landsteinana, nú sé ekki sama þörf á því. Það séu margar bachelor-gráður í boði við háskólann, meistaragráðurnar eru aðeins færri en þeim fer fjölgandi að sögn Sóleyjar.

Telur landa í Kaupmannahöfn öfundsjúka

Í frétt danska ríkisútvarpsins um uppganginn í Færeyjum er rætt við Lindu Klein, 23 ára konu, sem er að vinna lokaverkefnið sitt í fjármálahagfræði við háskólann í Færeyjum. Fyrir nokkrum árum síðan hefði hún ekki haft tök á því að nema það fag heima í Færeyjum, hún hefði heldur ekki haft tök á því að leigja ódýra námsmannaíbúð í Þórshöfn. Það var tvennt í boði, að fara í háskóla í öðru landi eða skrá sig í eitthvert annað nám. Hvorugur kosturinn var spennandi í huga Lindu en svo breyttist allt skyndilega, námsframboð jókst, Linda gat lært sína fjármálahagfræði og fékk auk þess herbergi á nýjum nemendagörðum með útsýni til fjalla, útsýni sem hún telur að flestir Færeyingar sem nema í Kaupmannahöfn myndu öfunda hana af. Til viðbótar við að auka aðgengi ungs fólks að námi og húsnæði hafa stjórnvöld svo breytt námslána- og styrkjakerfinu þannig að það samsvari betur því danska. 

Linda er komin með vilyrði fyrir starfi að námi loknu og er hæstánægð með að vera í hópi þeirra fyrstu sem útskrifast með gráðuna í Færeyjum. Saga Lindu er ekkert einsdæmi. Aðgerðir hins opinbera hafa virkað ef marka má upplýsingar frá Studni, færeyska námsstyrkja- og lánasjóðnum. Hlutfall færeyskra háskólanema sem leggja stund á nám í Færeyjum er nú 43% en var 36% árið 2011. Ekki var hægt að nálgast upplýsingar um það hjá nemendaskrá Háskóla Íslands hvort færri Færeyingar sæktu nú nám þar sem þeir eru þar skráðir sem danskir ríkisborgarar. 

Frumkvöðlamenning að verða til

Sóley segir að áhersla á frumkvöðlastarf hafi aukist mikið. Frá því í janúar í fyrra hafi orðið til 171 nýtt fyrirtæki í Færeyjum. Vinnustaður Sóleyjar, Hugskotið, er útungunarstöð fyrir frumkvöðla. Þar býðst verðandi frumkvöðlum vinnuaðstaða og ókeypis handleiðsla. Þegar frumkvöðlasetrið var opnað árið 2014 gátu sjö frumkvöðlar haft þar vinnuaðstöðu. Eftirspurnin hefur aukist stöðugt, nú eru þar 35 pláss og allt fullt að sögn Sóleyjar. Frumkvöðlarnir í Hugskotinu vinna náið með háskóla Færeyja, Fróðskaparsetrinu. Nemendur geta fengið reynslu af frumkvöðlastarfi meðan á námi stendur og starfsmenn setursins njóta góðs af aðstoð þeirra. Þetta er allt nýtt. Sóley segir að fyrir nokkrum árum hafi frumkvöðlastarf ekki verið mikið til umræðu í Færeyjum en nú hafi það breyst, menning orðið til í kringum nýsköpun og frumkvöðlastarf og slíkt starf kynnt í grunnskólum og framhaldsskólum. 

Margt hægt í dag sem var það ekki fyrir tíu árum

Sjávarútvegur er meginstoð færeysks atvinnulífs, bæði hefðbundinn sjávarútvegur og fiskeldi. Sóley segir mikilvægt að standa vörð um þessa geira, sem eru uppspretta næstum alls útflutnings, en segir líka brýnt að renna fleiri og fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið til að styrkja það. Hún horfir til nýsköpunar, ferðaþjónustu og upplýsingatækni. 

Danska ríkisútvarpið fjallar um kokkinn Poul Andrias Ziska, hann starfar á veitingastaðnum Koks á Streymoy. Staðurinn skartar Michelin-stjörnu og er líklega einn sá afskekktasti í heimi, það er ekki hægt að aka alla leið að honum í bíl. Samt er fullbókað öll kvöld og gestirnir flestir erlendir ferðamenn. Ferðaþjónustan hefur vaxið í Færeyjum, rétt eins og hér. Poul segir að fyrir tíu árum hefði Koks aldrei getað orðið að veruleika. Hann talar um töfra, að það sé einhver orka í loftinu sem allir finni og hann segist finna fyrir nýju stolti. Linda nefnir líka þetta stolt og segir að ungt fólk sjái framtíð á eyjunum, samfélagið sé orðið líflegra og ekki endilega mikill munur á því að mennta sig í Færeyjum eða í Kaupmannahöfn. Aftur á móti sé mikill munur að geta sótt námskeið kennd á færeysku. 

„Verðum að vona það besta“

Sóley segir að viðhorf ungs fólks til Færeyja hafi breyst. Fyrir nokkrum árum hafi örlað á minnimáttarkennd en hún hafi nú vikið fyrir stolti. Nú séu Færeyingar stoltari af því að vera Færeyingar af þessu litla landi og menningu þess. 

Hún skrifar þessa viðhorfsbreytingu á góðæri og ný tækifæri en segir ferðamenn líka hafa haft áhrif og hjálpað Færeyingum að sjá landið frá nýjum sjónarhóli og koma auga á sérstöðu Færeyja og þau tækifæri sem séu til staðar. Hún vonar að þróunin á eyjunum verði jákvæð áfram. „Við verðum bara að vona það besta, að við náum að gera þetta rétt,“ segir Sóley.  

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Frá Klakksvík.
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV