Geta lesið lögfræði
Sóley Heradóttir Hammer, forstjóri Hugskotsins, segir ungt fólk eygja framtíð í Færeyjum í auknum mæli. Tækifærunum hafi fjölgað, bæði í námi og starfi. Í háskólanum er nú hægt að nema lögfræði, hagfræði og upplýsingatækni, það var ekki hægt áður. Námsframboð í menntaskólum er líka fjölbreyttara. Sóley segir að það sé löng hefð fyrir því að Færeyingar fari út í nám, einkum til Danmerkur. Flestum finnist mikilvægt að prófa að búa í öðru og stærra samfélagi en áður hafi fólk oft þurft að sækja alla menntunina út fyrir landsteinana, nú sé ekki sama þörf á því. Það séu margar bachelor-gráður í boði við háskólann, meistaragráðurnar eru aðeins færri en þeim fer fjölgandi að sögn Sóleyjar.
Telur landa í Kaupmannahöfn öfundsjúka
Í frétt danska ríkisútvarpsins um uppganginn í Færeyjum er rætt við Lindu Klein, 23 ára konu, sem er að vinna lokaverkefnið sitt í fjármálahagfræði við háskólann í Færeyjum. Fyrir nokkrum árum síðan hefði hún ekki haft tök á því að nema það fag heima í Færeyjum, hún hefði heldur ekki haft tök á því að leigja ódýra námsmannaíbúð í Þórshöfn. Það var tvennt í boði, að fara í háskóla í öðru landi eða skrá sig í eitthvert annað nám. Hvorugur kosturinn var spennandi í huga Lindu en svo breyttist allt skyndilega, námsframboð jókst, Linda gat lært sína fjármálahagfræði og fékk auk þess herbergi á nýjum nemendagörðum með útsýni til fjalla, útsýni sem hún telur að flestir Færeyingar sem nema í Kaupmannahöfn myndu öfunda hana af. Til viðbótar við að auka aðgengi ungs fólks að námi og húsnæði hafa stjórnvöld svo breytt námslána- og styrkjakerfinu þannig að það samsvari betur því danska.
Linda er komin með vilyrði fyrir starfi að námi loknu og er hæstánægð með að vera í hópi þeirra fyrstu sem útskrifast með gráðuna í Færeyjum. Saga Lindu er ekkert einsdæmi. Aðgerðir hins opinbera hafa virkað ef marka má upplýsingar frá Studni, færeyska námsstyrkja- og lánasjóðnum. Hlutfall færeyskra háskólanema sem leggja stund á nám í Færeyjum er nú 43% en var 36% árið 2011. Ekki var hægt að nálgast upplýsingar um það hjá nemendaskrá Háskóla Íslands hvort færri Færeyingar sæktu nú nám þar sem þeir eru þar skráðir sem danskir ríkisborgarar.
Frumkvöðlamenning að verða til
Sóley segir að áhersla á frumkvöðlastarf hafi aukist mikið. Frá því í janúar í fyrra hafi orðið til 171 nýtt fyrirtæki í Færeyjum. Vinnustaður Sóleyjar, Hugskotið, er útungunarstöð fyrir frumkvöðla. Þar býðst verðandi frumkvöðlum vinnuaðstaða og ókeypis handleiðsla. Þegar frumkvöðlasetrið var opnað árið 2014 gátu sjö frumkvöðlar haft þar vinnuaðstöðu. Eftirspurnin hefur aukist stöðugt, nú eru þar 35 pláss og allt fullt að sögn Sóleyjar. Frumkvöðlarnir í Hugskotinu vinna náið með háskóla Færeyja, Fróðskaparsetrinu. Nemendur geta fengið reynslu af frumkvöðlastarfi meðan á námi stendur og starfsmenn setursins njóta góðs af aðstoð þeirra. Þetta er allt nýtt. Sóley segir að fyrir nokkrum árum hafi frumkvöðlastarf ekki verið mikið til umræðu í Færeyjum en nú hafi það breyst, menning orðið til í kringum nýsköpun og frumkvöðlastarf og slíkt starf kynnt í grunnskólum og framhaldsskólum.
Margt hægt í dag sem var það ekki fyrir tíu árum
Sjávarútvegur er meginstoð færeysks atvinnulífs, bæði hefðbundinn sjávarútvegur og fiskeldi. Sóley segir mikilvægt að standa vörð um þessa geira, sem eru uppspretta næstum alls útflutnings, en segir líka brýnt að renna fleiri og fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið til að styrkja það. Hún horfir til nýsköpunar, ferðaþjónustu og upplýsingatækni.
Danska ríkisútvarpið fjallar um kokkinn Poul Andrias Ziska, hann starfar á veitingastaðnum Koks á Streymoy. Staðurinn skartar Michelin-stjörnu og er líklega einn sá afskekktasti í heimi, það er ekki hægt að aka alla leið að honum í bíl. Samt er fullbókað öll kvöld og gestirnir flestir erlendir ferðamenn. Ferðaþjónustan hefur vaxið í Færeyjum, rétt eins og hér. Poul segir að fyrir tíu árum hefði Koks aldrei getað orðið að veruleika. Hann talar um töfra, að það sé einhver orka í loftinu sem allir finni og hann segist finna fyrir nýju stolti. Linda nefnir líka þetta stolt og segir að ungt fólk sjái framtíð á eyjunum, samfélagið sé orðið líflegra og ekki endilega mikill munur á því að mennta sig í Færeyjum eða í Kaupmannahöfn. Aftur á móti sé mikill munur að geta sótt námskeið kennd á færeysku.
„Verðum að vona það besta“
Sóley segir að viðhorf ungs fólks til Færeyja hafi breyst. Fyrir nokkrum árum hafi örlað á minnimáttarkennd en hún hafi nú vikið fyrir stolti. Nú séu Færeyingar stoltari af því að vera Færeyingar af þessu litla landi og menningu þess.
Hún skrifar þessa viðhorfsbreytingu á góðæri og ný tækifæri en segir ferðamenn líka hafa haft áhrif og hjálpað Færeyingum að sjá landið frá nýjum sjónarhóli og koma auga á sérstöðu Færeyja og þau tækifæri sem séu til staðar. Hún vonar að þróunin á eyjunum verði jákvæð áfram. „Við verðum bara að vona það besta, að við náum að gera þetta rétt,“ segir Sóley.