Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Færeyingar afþakka aðstoð - tjónið var tryggt

02.01.2017 - 15:16
Tinganes í Þórshöfn í Færeyjum
Þórshöfn í Færeyjum. Mynd úr safni. Mynd: Danmarks Radio
Færeyingar hafa afþakkað fjárhagsaðstoð frá íslenskum stjórnvöldum vegna óveðursins sem gekk yfir Færeyjar um jólin. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra greinir frá þessu á Facebook síðu sinni.

Þar segir hún frá því að hafa rætt símleiðis við Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja í dag og boðið stuðning frá íslenskum stjórnvöldum vegna eignatjóns sem varð í fárviðrinu.

Poul hafi sagst vera þakklátur Íslendingum fyrir augljósan velvilja, en tjónið hefði að langmestu leyti verið tryggt og eftir samráð við lögmann Færeyja væri niðurstaðan sú að Færeyingar þyrftu ekki á aðstoð að halda vegna stormsins.

Þá hafi hann beðið fyrir hlýjar kveðjur til Íslands og sagt að viðbrögðin héðan væri enn eitt dæmið um það trausta samband sem ríkir milli þessara frændþjóða.
 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV