Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Færa vinnandi fólki í landinu listina

Mynd: RÚV / RÚV

Færa vinnandi fólki í landinu listina

27.09.2017 - 12:44

Höfundar

St. Jósepsspítali í Hafnarfirði fékk nýtt tímabundið hlutverk þegar Sigurður Guðjónsson opnaði í samstarfi við Listasafn ASÍ sýninguna Innljós í kapellu og kjallara spítalans. Sýningin markar upphafið að nýju átaki sem gengur út á að sýna verk í eigu safnsins út um allt land.

Sem kunnugt er missti Listasafn ASÍ húsnæði sitt, Ásmundarsal, í fyrra. Safnið leitar nú að nýjum sal en í millitíðinni var ákveðið að blása í sérstakt menntunar- og kynningarátak, sem gengur út á að setja upp sýningar með verkum í eigu safnsins sem víðast. 

Gerast hústökufólk

„Við gerumst eiginlega hústökufólk,“ segir Elísabet Gunnarsdóttir, forstöðumaður Listasafns ASÍ.  „Sýningarnar verða til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum. Við verðum með skólaverkefni líka, gerum stuttmyndir og kynningarmyndbönd fyrir netið. Sýning Sigurðar er fyrsta sýningin í sýningarröðinni sem við erum að skipuleggja og við ákváðum að byrja í Hafnarfirði.“

Fjallað var um sýninguna í Menningunni og má horfa á innslagið hér að ofan. Í kynningu var Sigurður rangfeðraður og sagður Ingólfsson. Beðist er velvirðingar á þeim mistökum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Elísabet Gunnarsdóttir á opnuninni í St. Jósepsspítala.

Spítalinn bætir merkingu við verkin

Listráð safnsins auglýsti eftir tillögum að sýningum í vor og varð Sigurður Guðjónsson fyrir valinu en sýning hans, Innljós, samanstendur af þremur vídeóverkum í kapellu og kjallara St. Jósepsspítala.

Sigurður Guðjónsson ræðir sýningu sína Innljós á St. Jósepsspítala í Hafnarfirði.
 Mynd: RÚV
Sigurður Guðjónsson myndlistarmaður.

„Við fórum í vettvangsferðir í Hafnarfjörð og skoðuðum nokkra möguleika, það komu fimm eða sex staðir til greina,“ segir Sigurður. „Síðan þegar við skoðuðum spítalann og sáum þessa kapellu og kjallaran undir henni, þá fannst okkur það tilvalið rými fyrir vídeó sem við ætluðum að sýna; hlaðið merkingu og áhugaverð viðbót við verkið.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verkinu Fuser er varpað á gólf kapellu spítalans.

Verkin þrjú heita Fuser, Scanner og Mirror Projector. Því fyrsta er varpað á gólf kapellunnar en hin tvö eru í kjallara hússins. „Ég myndi segja að það sé ákveðin heildarvirkni sem ég er að leitast eftir í þessari sýningu. Það er ekki bara þessi mynd sem ég er að búa til heldur andrúmsloft í alla bygginguna.“ 

Í takt við grunnhugsjónirnar

Sýningin mun svo ferðast áfram á Norðvesturland eftir áramót og fara Sigurður og Elísabet bráðlega að leita að hentugu húsnæði. „Auðvitað söknum við gamla húsnæðisins en við verðum líka að horfa áfram og mér sýnist Elísabet ætla að gera spennandi hluti,“ segir Sigurður.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Tækifærin eru alveg ótrúlega mörg,“ bætir Elísabet við. „Það sem er svo skemmtilegt við þetta er að nú förum við út um allt með sýningar. Við sækjum fólk heim. Þetta er í raun og veru í takt við grunnhugsjónirnar á bakvið þetta safn, sem er að færa vinnandi fólki í landinu listina.“

Tengdar fréttir

Myndlist

Nýjar áherslur hjá Listasafni ASÍ

Myndlist

Nýjar áherslur hjá Listasafni ASÍ

Innlent

SÍM harmar sölu Ásmundarsals

Myndlist

Gæfusmiður í Listasafni ASÍ