Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fær takmarkaða akstursþjónustu frá Vesturbyggð

16.12.2016 - 15:16
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur staðfest synjun Vesturbyggðar á aksturþjónustu fyrir fatlaða aldraða konu umfram akstur í skipulagt tómstundastarf. Aðstandendur konunnar hafa barist fyrir því um árabil að konan fái akstursþjónustu fyrir fatlað fólk frá sveitarfélaginu líkt og tíðkast víða í stærri sveitarfélögum. Konan hefur ekki fengið akstursþjónstu frá því umsókn barst árið 2012.

Telur sveitarfélagið fylgja reglum

Úrskurðarnefndin telur að Vesturbyggð hafi fylgt reglum sveitarfélagsins um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk. Þær snúist um að gera fötluðu fólki kleift að stunda atvinnu og nám, sérstaka þjónustu fyrir fatlað fólk og skipulagt tómstundastarf. Konan er 86 ára og býr á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði vegna nauðsynlegrar aðhlynningar og telja aðstandendur hennar að reglur Vesturbyggðar stangist á við lög um réttindi fatlaðs fólks þar sem konunni gefst ekki kostur á almennum akstri, sem sveitarfélagið beri skyldur til, eins og á lögheimili konunnar sem er í 60 kílómetra fjarlægð. Á lögheimili konunnar sinni hún eigin tómstundum, garðrækt og viðhaldi húsa ásamt sonum sínum en það er ekki skilgreint sem skipulagt tómstundastarf. Kærandi telur að akstur sveitarfélagsins í eitt hús til tómstundastarfs uppfylli ekki lögbundnar skyldur sveitarfélagsins.  

Sjálsstjórnarréttur sveitarfélaga

Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, segir það mikilvægan þátt í sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga að geta sett sínar eigin reglur samkvæmt leiðbeinandi reglum ráðherra. Viss málefni verði að útfæra hjá staðbundnu stjórnvaldi, það eigi við um til dæmis skólaakstur og ferðaþjónustu fatlaðs fólks. „Eftir því sem ég hef kynnt mér þetta mál þá get ég ekki séð það og í raun ekkert í niðurstöðu úrskurðarnefndar sem bendir til annars en að þessar reglur sem að Vesturbyggð gerir standist þær kröfur sem eru settar um málefni fatlaðra,“ segir Guðjón. Engar almenningssamgöngur eru í Vesturbyggð og telur Guðjón að málið gæti litið öðruvísi við ef það væri í sveitarfélagi með almenningssamgöngum. Sveitarfélögum beri að veita fötluðu fólki þjónustu til jafns við aðra íbúa, ef sú þjónusta er fyrir hendi. 

Athugasemdir við afgreiðslu

Þrátt fyrir staðfestingu úrskurðarnefndarinnar á afgreiðslu Vesturbyggðar sér nefndin ástæðu til að gera athugasemdir við langan afgreiðslutíma sveitarfélagins á umsókninni og því að ekki hafi verið gert einstaklingsmat á konunni til að meta þarfir hennar eins og reglur sveitarfélagins kveði á um.

Engin akstursþjónusta

Konan hefur rétt á akstri í skipulagt félagsstarf. Konan óskaði fyrst eftir akstursþjónustu árið 2012 og enn er engin þjónusta fyrir hendi. Sveitarfélagið hefur keypt bíl til að sinna akstri sveitarfélagsins en hann er ekki enn kominn í notkun. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu þá hefur bíllinn verið á verkstæði í nokkurn tíma þar sem verið er að útbúa hann og laga að þörfum þess fólks sem hann kemur til að þjónusta. Gert er ráð fyrir því að bíllinn komist í notkun í byrjun næsta árs. 

Málarekstur í á fimmta ár

Mál konunnar á sér langa forsögu en hún, ásamt aðstandum, hafa barist fyrir því að sveitarfélagið Vesturbyggð veiti konunni akstursþjónustu fyrir fatlað fólk frá árinu 2012. Kastljós fjallaði um mál konunnar fyrir ári síðan. Þá hafði konan ekki fengið vilyrði fyrir akstursþjónustu af nokkru tagi. Það hefur þó breyst, með takmörkunum, eins og áður segir þótt enn hafi ekkert orðið af akstrinum. 

Málefni sveitarfélags eða ríkis?

Konan sem um ræðir er 86 ára. Hún var 81 árs þegar hún fékk sýkingu í mænu og hefur því verið hreyfihömluð og þurft á hjólastól að halda síðan. Í úrskurði úrskurðarnefndar Velferðarmála er fjallað um mál konunnar sem mál fatlaðs einstaklings vegna hreyfihömlunar hennar en jafnframt um mál hennar sem mál aldraðs einstaklings. Guðjón Bragason segir að í gildandi lögum þá sé ekki kveðið nógu skýrt um hvar mörkin liggja milli þjónustu við aldraða og við fatlað fólk. Þetta sé eitt slíkra mála sem lenda á gráu svæði. Hann bendir á að nú liggi fyrir tillögur að lagabreytingum um málefni fatlaðs fólks þar sem gert er ráð fyrir því að mörk liggi við 67 ára aldur. Ef einstaklingur sem er fatlaður og nýtur þjónustu samkvæmt lögum um fatlað fólk þar til hann verður 67 ára haldi þannig rétti til þeirrar þjónustu þegar hann verður 67 ára. Hins vegar verði það þannig að fólk sem verður hreyfihamlað eftir 67 aldur falli ekki í flokk fatlaðra einstaklinga. „Þarna er þá verið að skýra ákveðið grátt svæði sem snýr að ríki annarsvegar og sveitarfélagi hins vegar,“ segir Guðjón.