Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fær sekt fyrir að vera með barnaklám

17.02.2017 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már - RÚV
Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í dag karlmann til að greiða 200 þúsund króna sekt fyrir að vera með og skoða myndir og myndskeið af börnum sem sýnd voru á kynferðislegan og klámfengin hátt eða samskonar myndir af einstaklingum sem voru 18 ára en voru í hlutverki barns. Maðurinn neitaði sök og sagði tölvuna, sem efnið fannst á, hafa verið notaða þegar hann keypti hana.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að lögreglu hafi í september á síðasta ári borist upplýsingar um að maðurinn væri með gróft barnaklám í tölvu sem hann ætti. Ekki kemur fram hvernig þær upplýsingar bárust lögreglu.

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og sagðist hafa keypt tölvuna sem efnið fannst á notaða. Sá sem seldi honum tölvuna gaf skýrslu fyrir dómi og sagðist hafa byggt vélina upp úr notuðum hlutum. Hann hefði „straujað“ hana áður en hann afhenti manninum tölvuna. Útilokað væri að klámefni hefði þá verið í henni.

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að framburður mannsins þyki ekki trúverðugur og var hann því sakfelldur fyrir vörslu barnakláms. Honum var gert að greiða 200 þúsund króna sekt í ríkissjóð en sæta ella fangelsi í fjórtán daga.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV