Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fær Holuhraun annað nafn?

20.11.2015 - 16:28
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Fljótlega mun liggja fyrir hvort Holuhraun fær annað nafn, eða verður kallað Holuhraun áfram. Sveitarstjóri Skútustaðahrepps, segir vinnu við nafngiftina „á lokametrunum" og niðurstaðan verði kynnt fyrr en síðar.

Í haust skipaði sveitarstjórnin fimm manna nefnd um nafngiftina. Í henni sitja tveir fulltrúar Skútustaðahrepps, ásamt fulltrúum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Vatnajökulsþjóðgarðs og nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar.

Nefndin sendi Örnefnanefnd fjórar nafnatillögur til umsagnar og við því eru nú komin viðbrögð, að sögn Jóns Óskars Péturssonar, sveitarstjóra. Hann segir að þetta sé í fyrsta sinn sem nafngift sem þessi fari fram síðan ný lög um örnefni voru sett í mars síðastliðnum.

Samkvæmt þeim bera sveitarfélög ábyrgð á að nefna ný náttúrufyrirbæri að fenginni umsögn Örnefndanefndar. Örnefni verða meðal annars að vera lýsandi fyrir viðkomandi náttúrufyrirbæri og í samræmi við málvenjur.