
Fær bætur eftir að hún fékk gaskút í höfuðið
Konan kærði atvikið til lögreglunnar á Suðurlandi tveimur dögum eftir slysið. Vitni sem lögreglan ræddi við kvaðst hafa séð tvo menn kasta gaskút sín á milli en það hefði ekki séð gaskútinn lenda á sjálfu tjaldinu. Jafnframt hefði liðið nokkur stund frá því að konan og félagi hennar hefðu komið blóðug út úr tjaldinu með áverka.
Lögreglan ræddi við mennina tvo sem vitnið sá kasta gaskútnum sín á milli en þeir fullyrtu að hann hefði aldrei lent á tjaldinu. Rannsókn málsins var því felld niður í nóvember 2012. Konan skaut þeirri ákvörðun til ríkissaksóknara sem fól lögreglunni að rannsaka málið að nýju en það var síðan fellt niður að nýju í nóvember fyrir tveimur árum.
Héraðsdómur bendir á að dómkvaddir matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að áverkar sem konan fékk hafi verið slíkir að þeir gætu hafa hlotist af gaskút sem hefði verið kastað. Frásögn af blóði á tjaldhimni bendi enn fremur til þess að eitthvað utan tjaldsins hafi valdið meiðslum konunnar og þá hafi það kvisast á vettvangi að gaskút hefði verið kastað og hann lent á tjaldinu.
Dómurinn telur því að leiddar hafi verið nægar líkur á því að konan hafi slasast þegar óþekktur maður kastaði gaskút frá sér. Háttsemi hans hafi verið saknæm og því eigi konan rétt á bótum frá bótanefnd.