Fær að „gjósa eins og Geysir á góðum degi“

Mynd: RÚV / RÚV

Fær að „gjósa eins og Geysir á góðum degi“

20.10.2017 - 10:52

Höfundar

„Þessi unga ást og vonin um að allt fari vel, vonleysið og síðan hugrekkið í vonleysinu. Mér finnst standa upp úr í Toscu hvað Puccini spilar á öll litbrigði vonarinnar í þessu stykki. Vonarstefið hljómar aftur og aftur en í ólíkum búningi og segir allt aðra sögu. Það finnst mér vera sú tilfinning sem stendur upp úr, það er vonin,“ segir Bjarni Frímann Bjarnason, hljómsveitarstjórnandi Toscu sem frumsýnd verður í Íslensku óperunni laugardaginn 21. október.

Tosca er eitt þekktasta verk Puccinis, og var fyrst sett á svið árið 1900. Verkið fjallar um ástir, afbrýði og átök í skjóli umbyltingatíma í pólitík, en í forgrunni er ástarþríhyrningur aðalpersónanna Toscu, Cavaradossis og Scarpia.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Greg Eldrige, leikstjóri.

Leikstjóri þessarar uppfærslu er hinn ástralski Greg Eldrige, sem hefur um árabil starfað við Covent Garden, en þetta er í fyrsta sinn sem hann sest í leikstjórastól hér á landi.

Tosca er klassískt verk, og ber titilinn mest uppsetta ópera allra tíma. Ástæðuna fyrir því segir Greg einfalda: „Það sem gerir Toscu að einni mest fluttu og dáðustu óperunum er að umfjöllunarefnið er algilt. Við vitum hvað það er að verða ástfangin og þurfa að færa fórnir til að halda í ástina. Við vitum hvernig það er þegar fólk notar annað fólk, við vitum hvernig það er að hætta öllu fyrir ástina. Við vitum hvernig það er að taka afstöðu og neita að gefa sig af því að það er rétt í stöðunni,“ segir hann.

Vondir kallar þurfa sjarma

Kristján Jóhannsson fer með hlutverk Cavaradossis, en hann hefur tekið þátt í fjöldamörgum uppfærslum á þessu verki í gegnum tíðina.  „Það er búið að vera í vasanum hjá mér í 35 ár. Ég er búin að syngja hana um 396 sinnum. Þannig að ef við Íslendingar verðum duglegir að sjá sýninguna þá gæti ég farið í 400 sýningar. Það er náttúrulega bara æðislegt. Ég bara elska þetta hutverk, þetta er bara ég. Að syngja Puccini er engu líkt, maður fær bara gjörsamlega að gjósa eins og Geysir á góðum degi,“ segir Kristján.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristján Jóhannsson.

Toscu syngur breska söngkonan Claire Rutter, en hún er þekkt fyrir þetta hlutverk og hefur sungið það víða um heim. Claire segir Toscu krejast mikils af sér en hún tekur þeirri áskorun fagnandi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Claire Rutter.

„Til að vera góð Tosca verður maður að kunna að leika, það er alveg á hreinu. Það nægir ekki að syngja bara hlutverkið, það væri þrautleiðinlegt fyrir áhorfendur. Það gerist svo mikið í verkinu að það þarf jafnmikla ástríðu fyrir leiknum og söngnum. Þessar villtu tilfinningar á víxl og hún nær yfir allan skalann frá einum upp í tíu.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Kjartan Sigurðsson.

Með hlutverk skúrksins Scarpia fer Ólafur Kjartan Sigurðarson. Hann segist litla tengingu hafa við persónu skúrksins. „Það væri nú aumt ef ég myndi tengja vel við hann Scarpia, þá væri ég held ég í vondum málum svona dags daglega. En ég hef nú sagt í góðlátlegu gríni að það að syngja hlutverk eins og Scarpia þýðir að maður má gera allt í vinnunni sem maður gerir ekki heima hjá sér. Kannski fær maður ákveðna útrás, ég veit það ekki, en þetta er dramatískt séð mjög spennandi hlutverk. Dálítið krefjandi að sjálfsögðu, en þó hann sé vondi kallinn þá nær hann líka að sýna marga liti. Valdamiklir vondir kallar þurfa einhvern sjarma líka, til þess að komast allavega á þann stað sem þeir eru.