Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fækkun ferðamanna frá Mið-Evrópu áhyggjuefni

17.04.2018 - 10:55
Mynd með færslu
 Mynd: karls Sigtryggsson - RÚV/Landinn
Samdráttur hefur orðið í komu ferðamanna frá meginlandi Evrópu hingað til lands á meðan bandarísku og asísku ferðafólki hefur fjölgað. Bjarnheiður Hallsdóttir, nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir þetta ekki góða þróun og kennir háu gengi krónunnar um.

Samdráttur á Evrópumarkaði, en aukning á Asíumarkaði

Bjarnheiður sagði á Morgunvaktinni á Rás eitt að fleiri ferðamenn komi frá Bandaríkjunum og Asíu, en að samdráttur hefði orðið frá hefðbundnum markaðssvæðum, stærstu Mið-Evrópu mörkuðunum sem hafi gefið mest af sér í gegnum tíðina. „Síðan erum við að kljást við ofursterkt gengi krónunnar sem hefur mikil áhrif, sérstaklega á Mið-Evrópumarkaðinn.  Þannig að það eru vissulega blikur á lofti og breytingar fram undan."

Fækkað vegna þess að verðið er of hátt

Er ástæða til að að hafa áhyggjur af því að ferðamönnum frá Mið-Evrópu fækki?„Já, það er ástæða til þess vegna þess að þetta eru ferðamenn sem hafa verið okkur drjúgir í gegnum tíðina. Þeir ganga vel um landið og passa vel inn í menninguna. Þeir dvelja lengi og ferðast vítt og breytt um landið, sem er mjög mikilvægt til að landsbyggðin verði ekki út undan."
Hvers vegna er þessum ferðamönnum að fækka?
„Ég held að það sé fyrst og fremst út af verðlagi í augnablikinu.  Þetta eru mjög verðnæmir markaðir og fljótir að bregðast við ef að verðið hækkar."
 

Hátt gengi sökudólgurinn

Og hefur verðið hækkað að undanförnu?
„Það hefur hækkað gríðarlega mikið með styrkingu krónunnar undanfarin þrjú ár. Þá fór krónan að styrkjast og það hefur bein áhrif á eftirspurnina."
Og það er bara styrking krónunnar, ekki verðhækkanir?  „Verðhækkanir hafa vissulega spilað þarna inn í. Ferðaþjónustan er mjög mannaflafrek atvinnugrein og launakostnaður er hátt hlutfall af rekstrarkostnaði.  Þannig að verðhækkanir hafa vissulega spilað inn í líka en ég tel samt að gengið sé helsti orsakavaldurinn."

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV