Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fækkun evrópskra ferðamanna erfið

19.04.2018 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fækkun ferðamanna frá Evrópu verður erfið fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi. Fyrirtækjum fækkar ef ferðamönnum fækkar, segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Færri ferðamenn koma nú frá meginlandi Evrópu hingað til lands á meðan bandarísku og asísku ferðafólki hefur fjölgað. Ferðamenn frá Evrópu dvelja lengi og hafa meðal annars sótt norður á land.  
 
Arnheiður segir að um 20% ferðamanna fyrir norðan séu frá Mið og Suður-Evrópu. „Það verður mjög erfitt fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi ef þessum hópi fækkar vegna þess að þetta er það sem við byggjum á sérstaklega yfir sumartíman. Við erum ennþá með mjög mikla árstíðarsveiflu.“

„Þannig ef að þessum hópi fer að fækka þá sjáum við náttúrlega að veturnir verða erfiðir til þess að lifa af og fyrirtækjunum væntanlega fækkar þá líka.“

Búast má við að áhrifa samdráttarins gæti fljótt. Hjá sumum fyrirtækjum fyrir norðan er bókunarstaðan verri nú en áður en hjá öðrum er hún góð. Talið er að hátt gengi krónunnar og hátt verðlag sé ein helsta ástæða fækkunarinnar. 

Anja Tscherfinger  ferðamaður  frá Sviss segir að henni finnist mjög dýrt á Íslandi en einnig sé mikil dýrtíð í Sviss þannig að verðlagi hafi ekki mikil áhrif á hana. „En ég geri ráð fyrir að annað eigi við um fólk t.d. frá Þýskalandi eða löndum austar í álfunni.“

Valentina Kabaeva er ferðamaður frá Rússlandi.  Hún segir að mun dýrara sé á Íslandi en í Moskvu, einnig sé dýrara hér heldur en í Dubai  og Maldiveyjar. 

„Ætlar þú að koma aftur til Íslands? Auðvitað  - að sumarlagi held ég.  Ég þarf að eignast mikla peninga.“ 

Arnheiður segir að Íslendingar þurfi að leggja vinnu í að halda evrópskum mörkuðum. „Ég myndi vilja sjá að við færum í sérstakt markaðsátak fyrir alla landsbyggðina. Þannig að við myndum leggja áherslu á það að ferðamenn myndu fara víðar um landið. Við sjáum það á Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum að við erum ennþá með þessa gríðarlega miklu árstíðasveiflu og við þurfum að laga það.“
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV