„Fæ að eigna mér ofurkvenleikann í dragi“

Mynd: Guðmundur David Terrazas / Guðmundur David Terrazas

„Fæ að eigna mér ofurkvenleikann í dragi“

25.04.2017 - 09:39

Höfundar

Bio-queens nefnast kvenmenn í dragi sem klæða sig ekki upp sem karlmenn. Þær eru ekki drag-kóngar heldur drag-drottningar, sem ýkja þá annað hvort kvenleika sinn eða helga sig ákveðnum kvenkarakter.

Kristrún Hrafnsdóttir er íslensk bio-queen sem kallar sig Jenny Purr. „Það heillar mig mjög mikið að fara í drag og vera framlenging af sjálfri mér,“ segir hún.

Það hefur verið gagnrýnt af hinsegin samfélaginu þegar kvenmenn klæða sig upp í kvenkyns dragi. Kristrún segir að gagnrýnin hafi einkum beinst að sískynja konum (eða ciskynja), það er konum sem fæddar eru kvenkyns og eru með kvenlega kyntjáningu. „Dragkóngar eru mun viðurkenndari, en það er eins og það sé ekkert sérstakt við það að vera kona í kvenmanns dragi. Þannig að við höfum alltaf þurft að sanna okkur.“

Dragmenning á sér langa sögu og hafa dragdrottningar verið sýnilegar áratugum saman. Drag kemur t.d. fyrir í vinsælum kvikmyndum eins og Some Like it Hot frá árinu 1959, Rocky Horror Picture Show og Tootsie frá áttunda áratugnum. Svo mætti nefna heimsfrægar dragdrottningar á borð við Divine í kvikmynd John Waters Pink Flamingos og RuPaul sem sjónvarpsþættirnir RuPaul‘s Drag Race eru kenndar við.

Það hefur þó heyrst lítið af fyrirbærinu Bio-Queen. Er það nýtt af nálinni? „Það er ekki alveg nýtt fyrirbæri að vera kvenmaður í kvenkynsdragi,“ segir Kristrún. „Það er loksins að fá þessa viðurkenningu að við erum alvöru dragdrottningar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook Jenny Purr
Kristrún Hrafnsdóttir sem Jenny Purr í dragi. Ljósmyndir eftir Alfreð Jónsson & Julie Rowland

Gagnrýnir staðlaðar hugmyndir um kyn

„Ég fæ loksins að eigna mér þann ofurkvenleika sem er innra með mér. Jenny Purr er eiginlega bara framlenging af mér og sem Jenny Purr get ég svo margt sem ég get ekki sem Kristrún,“ segir Kristrún.

„Ég á það til að fækka fötum upp á sviði og það er oft eitthvað sem fólki dettur ekki í hug að Kristrún myndi gera, en sem Jenny Purr má ég það. Ég má eigna mér sjálfa mig sem kynveru. Sem Kristrún verð ég að hlýða einhverjum reglum samfélagsins en sem Jenny Purr má ég vera ég sjálf,“ segir hún. 

Upplifir druslusmánun er hún klæðist dragi

Kristrún segist vilja gagnrýna samfélagið í gegnum dragið. „Gagnkynhneigðir karlmenn vilja oft að ég skammist mín fyrir að fækka fötum og gera það sem ég geri í dragi.“

Hún segist upplifa druslusmánun þegar hún kemur fram í dragi. „En miðað við hvað kvenmenn eru kynferðislega hlutgerðir samfélaginu okkar, þá finnst mér asnalegt ég eigi að skammast mín fyrir að gera eitthvað sem ég kýs sjálf og með eigin vilja. Það er ekki eins og þeir séu að kippa sér upp við hlutgervingu kvenna dagsdaglega, en um leið og ég hef gaman af einhverju þá er það vandamál. Og þetta er eitthvað sem ég vil berjast gegn. Þetta er minn líkami og ég ræð hvað ég geri við hann,“ segir Kristrún.