Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Facebook veðjar á sýndarveruleika

27.03.2014 - 10:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Samskiptamiðillinn Facebook hefur fest kaup á sýndarveruleikafyrirtækinu Oculus. Hvað ætlar samskiptarisinn sér með það og hverjir eru möguleikar sýndarveruleikanum? Salvar Þór Sigurðarson tölvunarfræðingur segir vissar hindranir standa tækninni fyrir þrifum en möguleikarnir séu þó nánast óþrjótandi

Samfélagsmiðlarisinn Facebook tilkynnti í vikunni að hann ætlað að kaupa Oculus fyrir tvo milljarða bandaríkjadala, eða rúma 230 milljarða íslenskra króna. Oculus VR er sprotafyrirtæki sem hefur þróað sýndarveruleikagleraugu sem kallast Oculus Rift. Gleraugun hafa vakið mikla athygli meðal fjárfesta og forritara, þar á meðal Facebook. 

Möguleikar þrívíddargleraugnanna hafa einkum verið tengdir við tölvuleiki. Salvar Þór Sigurðsson segir möguleikana þó vera miklu meiri. Mark Zuckerberg sé líklega að veðja á að sýndarveruleikatæknin slái í gegn og nái almennri útbreiðslu, án þess að vita nákvæmlega hvernig það muni gerast. 

Salvar Þór er nú á lokametrunum með MS-ritgerð um rýmisskynjun í sýndarveruleika við Simon Frasier University í Kanada. Hann segir rýmisskynjun eitt af því sem standi sýndarveruleikatækninni helst fyrir þrifum. Fólk sé með innbyggðan áttavita, sem styðjist meðal annars við hreyfingu, sem hjálpi því við rýmisskynjun og að ná áttum í raunheimum. Í sýndarveruleika vanti þessa skynjun, þess vegna sé auðveldara að tapa áttum og verða jafnvel flökurt í sýndarveruleika.

Hins vegar séu til leiðir til að yfirstíga þetta vandamál. Takist það séu möguleikar sýndarveruleikatækninnar óþrjótandi og gætu bylt til dæmis samskiptamiðlum og áhorfi á kappleiki eða tónleika, þar sem áhorfandanum gæti fundist hann vera á staðnum þótt hann sitji í sófanum heima.