Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Facebook neitar ritskoðun á Uppruna heimsins

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia.Commons - Wikimedia commons

Facebook neitar ritskoðun á Uppruna heimsins

08.02.2018 - 10:20

Höfundar

Fimmtudaginn síðastliðinn mætti samfélagsmiðillinn Facebook frönskum kennara á miðjum aldri, Frédéric Durand, í réttarsal í Frakklandi. Sjö árum fyrr hafði Durand kært Facebook fyrir að hafa lokað Facebook-reikningi sínum án skýringa. Daginn sem reikningnum var lokað, í febrúar árið 2011, hafði Durand birt mynd af málverkinu Uppruna heimsins eftir Gustaf Courbet.

 

Uppruni heimsins eftir franska raunsæismálarann Gustaf Courbet er olíuverk frá árinu 1866 og er það fyrsta í vestrænni listasögu sem sýnir sköp konu í návígi. Verkið er í raunsæisstíl og listamaðurinn dregur ekkert undan. Verkið er ekki stórt, það er 45 x 55 cm, en sköpin fylla flötin og birtast áhorfandanum nákvæmlega eins og þau eru.

Durand heldur því fram að Facebook hafi lokað reikningi sínum um leið og sköpin birtust þar, að samfélagsrisinn hafi ritskoðað síðu hans og flokkað myndina sem klám, án þess að átta sig á því að hér væri um eitt mikilvægasta verk listasögunnar að ræða. Hann er sannfærður um að um ritskoðun sé að ræða og þess vegna ákvað hann að kæra, í nafni tjáningarfrelsis. Á þeim sjö árum sem liðin eru frá lokun síðunnar hefur Durand ítrekað reynt að endurræsa hana, en án árangurs þar sem facebook geymir upplýsingar um eydda reikninga ekki lengur en í 90 daga. Í millitíðinni hefur Facebook  breytt reglunum og í dag, frá árinu 2015, má birta nektarmyndir á samfélagsmiðlinum, séu þær flokkaðar sem listaverk.

Facebook til varnar segja lögfræðingar samfélagsmiðilsins að á umræddum tíma, árið 2011, hafi verið bannað skv. reglum miðilsins að birta þar nektarmyndir, en Durand til varnar segir lögfræðingur hans að ekki eigi að skilgreina verkið sem nektarmynd,  heldur sem mikilvægt verk í menningarsögu Frakklands.  „Nærmyndin af sköpum konunnar, klofi og maga er mynd af nekt sem er miklu meira en nekt, þetta er nekt sem hefur verið lofsömuð og gerð háleit af ótrúlegum hæfileikum listamannsins,“ segir lögfærðingurinn, Stephanie Cottineau.

Réttarhöldin í París

Umrædd facebook-færsla, sem hefur heldur betur hrundið af stað umræðu um nekt, list og ritskoðun,  virðist vera glötuð að eilífu líkt og síða Durands, og krefst hann þess í  í lögsókn sinni að aðgangur hans verði endurræstur, og að honum verði greiddar 20.000 evrur í skaðabætur. Facebook barðist fyrir því  í fimm ár að þurfa ekki að koma fyrir rétt í Frakklandi með þeim rökum að Durand, rétt eins og allir aðrir facebook notendur, hafi undirritað skilmála þess efnis að allar lögsóknir sem kunni að koma upp í gegnum notkun síðunnar, muni fara fram á heimslóðum fyrirtækisins, í Kaliforníu. En hæstiréttur í París komst að þeirri niðurstöðu í október árið 2016 að réttarhöldin skyldu víst fara fram í París.

Mynd með færslu
Sjálfsmynd Gustafs Courbet.

Í dómssal síðastliðinn fimmtudag neitaði Facebook nokkurri ritskoðun, og benti á að eftir að reikningi Durands hafi verið lokað hafi hann opnað annan reikning undir dulnefni þar sem hann setti aftur umrædda mynd á vegginn, og sá reikningur sé enn opinn.  Og að enn fremur sé ómögulegt að sanna það að fyrri reikning hafi verið lokað vegna ritskoðunar á verki Courbets. Lögfræðingar samfélagsmiðilsins segja málsóknina úr lausu lofti gripna, og biðja um að Durand veðri sektaður um eina táknræna evru í skaðabætur, án þess þó að gefa á því nokkra útskýringu afhverju reikningi hans hafi verið lokað. Lögfræðingur Durands er þessu ósammála. „Það skítur skökku við að Facebook skuli ekki taka  afstöðu gagnvart ofbeldi og hatursorðræðu á miðlinum en þegar kemur að líkömum þá er tekin svona hörð afstaða. Það getur ekki verið tilviljun að tveimur og hálfu ári eftir að Durand skráði sig á facebook, hafi reikningi hans verið lokað sama dag og Uppruni heimsins eftir Courbet birtist þar.“

Málaði veröldina eins og hún var

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem málverk særir blygðunarkennd góðborgara en þetta er í fyrsta sinn sem Facebook þarf að mæta í réttarsal utan Kaliforníu eftir að algóritmi síðunnar ritskoðar listaverk. Meira en öld eftir að Courbet reyndi að sannfæra Parísarbúa um að listin væri annað og meira en fullkomin fegurð í anda þess sem samtímamenn hans máluðu, fer mynd hans af líkama konu fyrir rétt í París. Courbet vildi mála veröldina, og þar með talinn líkama konunnar, eins og hún var. Raunverulega og sanna, en ekki fegraða og óraunsæja ímynd hennar. Myndin þótti svo óþægilega sönn að hún kom ekki fyrir sjónir almennings fyrr en árið 1995 því uppruni heimsins hafði þangað til alltaf verið í eigu einkasafnara og myndin því orðin hálfgerð goðsögn þegar hún áskotnaðist loks Orsay safninu í París árið 1995.

Sagan segir að tyrkneski diplómatinn Khalil-Bay hafi fengið verkið í kaupbæti þegar hann pantaði annað og stærra verk af Courbet. Khalil-Bay hafði verkið þó ekki uppi fyrir allra augum heldur faldi hann það á bakvið þykk gluggatjöld, sem hann aðeins dró aðeins frá þegar hann heimsóttu  vel útvaldir gestir. Khalil-Bay var ekki lengi eigandi verksins heldur flakkaði það á milli dularfullra eigenda þar til sálfræðingnum Jacques Lacan, og eiginkonu hans Silviu Lacan, áskotnaðist það.

Mörk kláms og listar

Lacan-hjónin voru líkt og tyrkneski diplómatinn ekkert að auglýsa eign sína heldur geymdu þau leyndarmálið svo vel að það var ekki afhjúpað fyrr en eftir lát sálfræðingsins. Sylvía hafði tvisvar sinnum samþykkt að lána verkið á sýningar áður en hún lést árið 1993 en tveimur árum síðast gáfu erfingjar hennar verkið til Orsay safnsins. Uppruni heimsins hangir þar enn og heldur áfram að koma fólki á óvart og valda umtali. Á sínum tíma vakti það meðal annars upp spurningar um tilgang listarinnar, um fegurð og sannleika en í réttarsalnum í dag vekur það  fyrst og fremst upp spurningar um mörkin á milli kláms og listar, og um tjáningarfrelsið á einum stærsta fréttamiðli veraldar. Deilurnar um uppruna alheimsins halda áfram í réttarsal í París þar til dómari kveður upp úrskurð sinn þann  15.mars næstkomandi.

Tengdar fréttir

Myndlist

Eitt elsta listamannarekna sýningarýmið

Myndlist

Mynd eftir van Gogh reyndist ófölsuð

Myndlist

Listamaðurinn Donald Trump byggir múr

Myndlist

Barrokkskápur hýsir minnsta gallerí landsins