Uppruni heimsins eftir franska raunsæismálarann Gustaf Courbet er olíuverk frá árinu 1866 og er það fyrsta í vestrænni listasögu sem sýnir sköp konu í návígi. Verkið er í raunsæisstíl og listamaðurinn dregur ekkert undan. Verkið er ekki stórt, það er 45 x 55 cm, en sköpin fylla flötin og birtast áhorfandanum nákvæmlega eins og þau eru.
Durand heldur því fram að Facebook hafi lokað reikningi sínum um leið og sköpin birtust þar, að samfélagsrisinn hafi ritskoðað síðu hans og flokkað myndina sem klám, án þess að átta sig á því að hér væri um eitt mikilvægasta verk listasögunnar að ræða. Hann er sannfærður um að um ritskoðun sé að ræða og þess vegna ákvað hann að kæra, í nafni tjáningarfrelsis. Á þeim sjö árum sem liðin eru frá lokun síðunnar hefur Durand ítrekað reynt að endurræsa hana, en án árangurs þar sem facebook geymir upplýsingar um eydda reikninga ekki lengur en í 90 daga. Í millitíðinni hefur Facebook breytt reglunum og í dag, frá árinu 2015, má birta nektarmyndir á samfélagsmiðlinum, séu þær flokkaðar sem listaverk.
Facebook til varnar segja lögfræðingar samfélagsmiðilsins að á umræddum tíma, árið 2011, hafi verið bannað skv. reglum miðilsins að birta þar nektarmyndir, en Durand til varnar segir lögfræðingur hans að ekki eigi að skilgreina verkið sem nektarmynd, heldur sem mikilvægt verk í menningarsögu Frakklands. „Nærmyndin af sköpum konunnar, klofi og maga er mynd af nekt sem er miklu meira en nekt, þetta er nekt sem hefur verið lofsömuð og gerð háleit af ótrúlegum hæfileikum listamannsins,“ segir lögfærðingurinn, Stephanie Cottineau.
Réttarhöldin í París
Umrædd facebook-færsla, sem hefur heldur betur hrundið af stað umræðu um nekt, list og ritskoðun, virðist vera glötuð að eilífu líkt og síða Durands, og krefst hann þess í í lögsókn sinni að aðgangur hans verði endurræstur, og að honum verði greiddar 20.000 evrur í skaðabætur. Facebook barðist fyrir því í fimm ár að þurfa ekki að koma fyrir rétt í Frakklandi með þeim rökum að Durand, rétt eins og allir aðrir facebook notendur, hafi undirritað skilmála þess efnis að allar lögsóknir sem kunni að koma upp í gegnum notkun síðunnar, muni fara fram á heimslóðum fyrirtækisins, í Kaliforníu. En hæstiréttur í París komst að þeirri niðurstöðu í október árið 2016 að réttarhöldin skyldu víst fara fram í París.