Facebook biður Xi afsökunar á dónaskap

19.01.2020 - 08:10
Erlent · Asía · Facebook · Kína · Mjanmar · Xi Jinping
epa08137362 Myanmar State Counselor Aung San Suu Kyi (R) and Chinese President Xi Jinping (L) pose for photos while shaking hands during a meeting at the Presidential Palace in Naypyitaw Myanmar, 18 January 2020. Chinese President Xi Jinping is on official visit to Myanmar from 17 January to 18 January 2020.  EPA-EFE/NYEIN CHAN NAING/POOL / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Stjórnendur Facebook fundu sig knúna til þess að biðja Xi Jinping, leiðtoga Kína, afsökunar á leiðum þýðingamistökum miðilsins. Sé nafn leiðtogans þýtt úr búrmönsku yfir á ensku verður niðurstaðan Mr. Shithole, sem gæti lagst upp sem Hr. Skíthæll á íslensku.

Mistökin urðu ljós á öðrum degi opinberrar heimsóknar leiðtogans til Mjanmars. Þar rituðu Xi og Aung San Suu Kyi undir tugi samninga varðandi innviðauppbyggingu í Mjanmar sem Kínverjar ætla að fjármagna. Ef yfirlýsing á síðu Suu Kyi um fundi þeirra Xi var þýdd yfir á ensku var margoft minnst á Mr. Shithole. Fyrirsögn mjanmarska dagblaðsins Irrawaddy um kvöldverð leiðtoganna varð einnig helst til dónaleg í garð forsetans þegar hún var þýdd á Facebook, þar sem kvöldverðurinn var sagður til heiðurs Shithole forseta.

Óvíst er hversu lengi villan viðgekkst á Facebook. Þýðingar á leitarvél Google sýndu ekki sömu niðurstöðu. Facebook sagði í yfirlýsingu að unnið sé að því að komast að tildrögum mistakanna til að tryggja að þau endurtaki sig ekki. „Málið endurspeglar ekki rétta virkni miðlanna okkar og við biðjumst innilega afsökunar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið," segir í yfirlýsingu Facebook.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Facebook lendir í vandræðum með þýðingar úr búrmönsku. Reuters greindi frá því árið 2018 að ýmsar undarlegar þýðingar birtust þegar þýtt var yfir á ensku.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi