Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fáar konur í forystu til Alþingis

Fjórðungur efstu sæta framboðslista Sjálfstæðisflokks er skipaður konum. í efstu þremur sætum í öllum kjördæmum. Kynjahlutföll eru jöfn hjá Viðreisn og Vinstri grænum. Kona leiðir aðeins einn lista af sex hjá Sjálfstæðisflokki og Dögun.

Niðurstöður í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Suður- og Suðvesturkjördæmi urðu til þess að þrjár áhrifakonur sögðu sig úr Sjálfstæðisflokknum og gagnrýndu það sem þær kölluðu viðvarandi íhaldsstefnu innan flokksins.

Kona leiðir aðeins einn lista af sex hjá Sjálfstæðisflokki og Dögun. Björt framtíð, Framsóknarflokkur og Samfylking eru með tvær konur á oddinum. Kynjahlutföll oddvita eru jöfn hjá Viðreisn og Pírötum. Fjórir oddvitar Vinstri grænna af sex eru konur. 

Hlutfallið lægst hjá Sjálfstæðisflokki

Fréttastofa tók saman kynjahlutföll í efstu þremur sætum þeirra átta lista sem komnir eru fram í öllum kjördæmum. Það eru Björt framtíð, Framsóknarflokkur, Viðreisn, Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, Dögun, Vinstri græn og Píratar.

Björt framtíð og Samfylking eru einu flokkarnir sem eru með konur í meirihluta í efstu þremur sætunum, ellefu af átján. Viðreisn og Vinstri græn eru með svokallaða fléttulista svo kynjahlutföll eru jöfn í öllum kjördæmum. Framsóknarflokkur, Píratar og Dögun eru með sjö konur af átján. Hlutfall kvenna er lægst hjá Sjálfstæðisflokknum, en þar eru fimm konur í efstu sætunum í öllum kjördæmum. Viðreisn hefur ekki lokið við að raða á lista í Norðausturkjördæmi, en þar sem flokkurinn er með fléttulista, og oddvitinn er karl, þá verður kona í öðru sæti og karl í þriðja. 

Alls eru þetta 144 frambjóðendur, 78 karlar og 66 konur.

Níu karlar leiða í Norðausturkjördæmi

Níu listar eru nú mannaðir í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar eftir að Dögun lauk við að raða á lista í gær. Allir oddvitar flokkanna eru karlar, en þetta er eina kjördæmið þar sem engin kona leiðir lista.

Leiðrétt: Upphaflega stóð að Píratar væru með sex konur í þremur efstu sætum á listum sínum, en hið rétta er að flokkurinn er með sjö konur. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður