Fáar athugasemdir lögreglu á Bakka

15.05.2016 - 01:38
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Fáar athugasemdir voru gerðar af hálfu lögreglu á aðbúnaði starfsfólks og öryggismálum á vinnusvæðinu við Bakka, norðan Húsavíkur í gær. Lögreglan fór í fyrirvaralausa heimsókn á svæðið til þess að kanna mál er varða erlent vinnuafl. Frá þessu er greint á Facebook síðu lögreglunnar á Norðurlandi Eystra.

Athuguð voru réttindamál, aðbúnaður, hollustuhættir og launakjör þess verkafólks sem vinnur á Bakka. Lögregla kannaði réttindi ökumanna á vinnuvélum og hvort vinnuafl væri skráð í landið, væri með íslenska kennitölu og fleira. Starfsmenn voru beðnir um að framvísa vinnustaðaskírteinum sem þeir eiga að bera á sér.

Öryggisfulltrúar EFLU verkfræðistofu og LNS SAGA fylgdu lögreglunni um svæðið. Lögreglan á Norðurlandi eystra nauð aðstoðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Lögregluskóla ríkisins og formanns stéttarfélagsins Framsýnar.

Fyrr í gær sat lögregla námskeið í málefnum útlendinga með áherslu á vinnustaðaheimsóknir af þessu tagi. Lögreglan hyggst halda slíku eftirliti með fyrirtækjum sem halda erlent vinnuafl áfram. Segir á Facebook að þau fyrirtæki geti átt von á heimsókn lögreglu þar sem kannað verður með aðbúnað og réttindamál.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi