Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Fáar ábendingar frá prestum

26.08.2010 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Aðeins þrjár af ríflega fjögur þúsund og þrjú hundruð tilkynningum um vanrækslu og brot gegn börnum í Reykjavík í fyrra komu frá prestum. Framkvæmdastjóri barnaverndarnefndar segir að tilefni kunni að vera til kynningarátaks meðal presta um tilkynningaskylduna.

Tæpur helmingur allra tilkynninga sem bárust barnaverndarnefndum í fyrra var til nefndarinnar í Reykjavík. Hún fékk alls 4.332 tilkynningar í fyrra og vörðuðu þær rétt tæplega tvö þúsund börn og sextán hundruð heimili. Langflestar tilkynningar komu frá lögreglu, 2.219, að því er kemur fram í ársskýrslu Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Næstflestar komu frá nágrönnum og almennum borgurum eða 450. Þrjú hundruð og þrjár tilkynningar komu frá starfsfólki heilbrigðisstétta og aðeins fleiri frá skólum, eða 348. Nítján börn leituðu sjálf til barnaverndarnefnda. Ekki er að finna í skýrslunni upplýsingar um fjölda tilkynninga frá prestum en samkvæmt upplýsingum frá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur bárust henni aðeins þrjár tilkynningar frá prestum í fyrra. Árið áður voru þær tvær talsins. Það ár var heildarfjöldi tilkynninga til nefndarinnar 3.814. Árið 2007 bárust tvær tilkynningar frá prestum.

Þá bárust sjö tilkynningar í fyrra frá starfsmönnum í íþrótta- og tómstundastarfi, en undir það fellur æskulýðsstarf kirkjunnar. Í fyrra voru tilkynningarnar þrjár. Þá bárust tvær tilkynningar frá sýslumönnum. Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri barnaverndarnefndar Reykjavíkur, segir að tilkynningar frá prestum séu vissulega ekki margar.Hún segist ekki hafa forsendur til þess að efast um að prestar vinni rétt. Kannski þurfi að gera sérstakt átak meðal presta og starfsmanna kirkjunnar. Hún undirstrikar að öllum beri skylda til að tilkynna grun um að barn sé í hættu.