Fá skýrslu um meint einelti í Grundarfirði

Grundarfjörður Vesturland
 Grundarfjörður Vesturland
 Mynd: Jóhannes Jónsson Jóhannes Jó
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur gert Grundarfjarðarbæ að afhenda stóran hluta skýrslu um meint einelti á vinnustað í bænum sem fyrirtækið Líf og sál vann fyrir sveitarfélagið. Grundarfjarðarbær taldi sig ekki þurfa að afhenda skýrsluna þar sem niðurstaðan úr rannsókninni hefði verið sú að ekkert einelti hefði átt sér stað.

Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að í skýrslunni sé fjallað um samskipti tveggja einstaklinga við starfsmenn Grundarfjarðarbæjar. Tilefnið hafi verið úttekt á kvörtunum þeirra á einelti á vinnustað í Grundarfjarðarbæ.

Grundafjarðarbær ákvað að afhenda aðeins niðurstöðukafla skýrslunnar og var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál í byrjun síðasta árs.. Þar kom fram að þeir teldu sig þurfa  fá skýrsluna í heild, meðal annars til að geta sannreynt málavexti og lagt mat á það hvort tilefni væri til að dómkveðja matsmann.

Grundarfjarðarbær taldi að vísa bæri kærunni frá þar sem hún væri of seint fram komin. Þá hefðu viðmælendur í skýrslunni veitt upplýsingar í þeirri trú að þær yrðu ekki látnar berast öðrum en Grundarfjarðarbæ. Úrskurðarnefndin sendi sex af þeim sem nafngreindir eru í skýrslunni erindi og óskaði eftir aðstöðu þeirra - tveir samþykktu birtingu á svörum sínum en fjórir voru á móti.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu í lok desember að Grundarfjarðarbæ bæri afhenda stóran hluta skýrslunnar sem er 62 síður að lengd. Meðal þess voru hlutar þar sem fjallað var um aðdraganda málsins, málið í hnotskurn, kvartanir þeirra og kafla þar sem svör meintra gerenda eru tekin saman sem og samantekt á svörum annarra viðmælenda og tillögur.

Nefndin staðfesti aftur á móti þá ákvörðun Grundarfjarðarbæjar að hann þyrfti ekki að afhenda blaðsíður þar sem finna má svör meintra geranda. Það var mat nefndarinnar að hagsmunir viðmælendanna  vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að þeim kafla. Þá ber bænum ekki heldur að afhenda kafla um greiningu málsins enda komi þar fram ítarlegar lýsingar meintra gerenda á persónulegum upplifunum þeirra af samskiptum sínum við einstaklinganna tvo.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi