Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fá sjö flugvélar og fjölga farþegum um milljón

26.01.2018 - 10:06
Mynd: WOW air / WOW air
Flugfélagið WOW air stefnir að því að fjölga farþegum sínum um eina milljón á þessu ári, og aðra milljón á því næsta. Þetta segir Skúli Mogensen, forstjóri félagsins. Hann segir að von sé á sjö nýjum og stórum Airbus þotum til félagsins á þessu ári. Aðeins um 10% farþega félagsins eru Íslendingar.

Skúli segir að WOW air hafi aldrei staðið eins vel og nú. „Ég held að við höfum aldrei verið svona vel undirbúin og svona vel mönnuð eins og í dag. Við erum að fá sjö glænýjar Airbus þotur á árinu. Fyrsta kemur í næstu viku, svo koma tvær í viðbót í vor og fjórar undir lok ársins. Þannig að ég horfi mjög björtum augum til framtíðarinnar,“ sagði Skúli á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Þessu hljóta að fylgja einhverjir vaxtaverkir?

„Vissulega. Það er búið að tefla djarft. Og ég skil vel að sumir séu undrandi. En þetta hefur gengið ágætlega og við erum að horfa fram á það að fjölga farþegum okkar um um það bil milljón í ár og annað eins aftur á næsta ári, byggt á þessum þotum sem við erum að fá undir lok ársins. Og það helgast af því að þetta verða stærstu flugvélar sem sést hafa á Íslandi; 365 sæta glænýjar Airbus 330neo sem eru jafnframt þær langdrægustu.“

Mikilvægar hliðartekjur

Nú hafa fargjöldin verið óvenju lág undanfarin misseri, áttu von á að þau lækki enn meira á þessu ári?

„Ég vona það. Ég segi stundum að kollegar mínir vakni á morgnana og reyni að hækka fargjöld. Ég vakna á morgnana og reyni að lækka fargjöld.“

En það hefur væntanlega áhrif, ef þið ætlið að fljúga með fjórar milljónir farþega á næsta ári og meðalfargjaldið lækkar um þúsund krónur, þá eru það fjórir milljarðar sem þið hefðuð annars fengið. Er þetta ekkert áhyggjuefni?

„Ég bendi stundum á Ryanair sem er orðið stærsta flugfélag í Evrópu. Það er ennþá að vaxa um 15% á milli ára. Það er orðið stærra en Lufthansa og stærra en British Airways. Jafnframt eru þeir að skila bestu og mestu arðsemi allra flugfélaga.“

Skúli segir að WOW air sé stöðugt að leita nýrra leiða til þess að kynna nýjungar sem afla félaginu tekna sem hann kýs að kalla hliðartekjur, það er að segja aðrar tekjur en þær sem fást með sölu á flugmiðum.

„Það er lykilatriði að það gangi vel þannig að við séum ekki bara að treysta á flugsætið. Ég hef sagt að markmið okkar sé að hliðartekjur okkar verði meiri en sætistekjurnar,“ segir Skúli og nefnir sem dæmi að tekjur sem fást af farangri flokkist sem hliðartekjur. „Ég held kannski að þetta snúist fyrst og fremst um það að við gefum farþegum okkar frelsi og val til þess að borga eingöngu fyrir það sem þeir nota,“ segir Skúli.

Viðtalið við Skúla má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV