Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fá ráðgjafa til að flýta afnámi hafta

04.04.2014 - 18:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Þeim verður fjölgað sem vinna í fullu starfi við áætlun um afnám hafta og fleiri ráðgjafar fengnir til verksins, segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Fyrstu skrefin verði að aflétta höftum af fjármálahreyfingum almennings og smærri fyrirtækja.

Aðaláhyggjuefnið þegar rætt er um afnám hafta er að við það verði hér annað bankahrun, krónan hrynji og verðbólga rjúki upp úr öllu valdi - þannig að lífskjör versni til muna. Til að reyna að forða því fól ríkisstjórnin hópi sérfræðinga að greina vandann og koma með tillögur að aðgerðum.

Fjármálaráðherra segir að hópurinn hafi lagt fram mikið af nýjum upplýsingum. Unnt sé að ganga hratt fram í afnámi hafta ef kröfuhafar þrotabúanna geri sér grein því að ekki verði veittur aðgangur að erlendum gjaldeyri nema tryggt sé að það raski ekki stöðu þjóðarbúsins.

„Ef þeir gera sér hins vegar ekki grein fyrir því þá getur það tekið lengri tíma sem getur mögulega endað með gjaldþroti en ekki slitameðferð og nauðasamningum. Varðandi aðra hluti þá vonumst til þess að til dæmis getað lyft sem allra fyrst fjármagnshöftum af öllum svona minni fjármálahreyfingum fyrir almenning og smærri fyrirtæki. Það er til dæmis mikið kvartað undan því af litlum fyrirtækjum að höftin séu til trafala og vonandi getum við stigið slík skref sem allra fyrst.“

Aðspurður hvort talað sé um vikur eða mánuði, svarar Bjarni að málið sé í algjörum forgangi hjá ríkisstjórninni. „Og meðal þess sem er lagt til núna og við munum taka til skoðunar er að breyta því stjórnskipulagi sem við erum að starfa eftir, að það verði fleiri að vinna í fullu starfi við afnámsáætlunina.“

Verður það á þessu ári sem skref verða stigin? „Ég hef aldrei viljað lofað neinu, ég hef bara sagt að ég sé bjartsýnn á að það sé hægt að ná mikilvægum áföngum. Það er háð ýmsu. Ég segi á þessu ári, já er hægt að stíga mikilvæga áfanga til þess að losna út úr þessu ástandi og við munum setja aukna krafta, aukinn mannskap og eftir atvikum fá fleiri ráðgjafa að málinu til þess að ná slíkum árangri.“