Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fá mokstur í Árneshrepp gegn greiðslu

15.03.2019 - 15:58
Vegurinn í Árneshrepp opnaður um miðjan mars 2018
Snjómokstur í Árneshreppi. Mynd úr safni. Mynd: Jón Guðbjörn Guðjónsson - Aðsend mynd
Árneshreppur hefur fjórum sinnum í vetur fengið svokallaðan helmingamokstur í sveitarfélagið. Þá ryður Vegagerðin veginn í hreppinn en sveitarfélagið greiðir helming kostnaðar. Að jafnaði er vegurinn ekki ruddur frá janúar fram í mars þar sem vegurinn fellur undir svokallaða G-snjómokstursreglu Vegagerðarinnar.

Engin verslun í vetur

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi, segir að sérstaklega í ljósi þess að engin verslun er nú starfandi í sveitarfélaginu hafi verið óskað eftir mokstri norður í hreppinn. Það hafi ávallt verið gert að vel ígrunduðu máli með tilliti til veðurspár svo að moksturinn nýttist sem best og vegurinn héldist sem lengst opinn. Eva segir að það hafa tekist vel, vegurinn hafi að jafnaði verið opinn í viku til tíu daga, að undanskildu einu skipti þegar vegurinn lokaðist strax aftur. Þau hafi verið heppin með tíðina enda mjög snjóléttur vetur. 

Ekki rutt yfir háveturinn

Vegurinn norður í Árneshrepp fellur undir svokallaða G-snjómokstursreglu Vegagerðarinnar. Þá er Vegagerðinni heimilt að moka tvo daga í viku haust og vor á meðan snjólétt er, frá 1. nóvember til 5. janúar einu sinni í viku og á milli 5. janúar og 20. mars einu sinni í viku að beiðni og gegn heilmingagreiðslu frá sveitarfélagi. Kostnaður er misjafn eftir því hversu mikinn snjó þarf að ryðja.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps

Vilja frekar skóla en gildan sveitasjóð

Eva segir ekki liggja fyrir hversu mikill kostnaðurinn er, líklega nokkur hundruð þúsund fyrir hvert skipti og er greiddur úr sveitasjóði. Hún segir að sveitsjóður standi betur en oft áður vegna þess að sveitarfélagið starfrækir ekki skóla í vetur þar sem Finnbogastaðaskóli var ekki settur síðasta haust þar sem aðeins eitt barn var eftir í sveitarfélaginu. Eva segir það þó ósk sveitarfélagsins að geta frekar haldið úti skólastarfi en eiga gildan sveitasjóð.

Sveitarfélagið hefur óskað eftir mokstri í næstu viku en þá á vetrartímabili G-reglunnar einnig að ljúka.