Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fá leyfi til að fresta samræmdum prófum

07.03.2018 - 11:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Menntamálastofnun hefur gefið leyfi til skólastjórnenda til að fresta samræmdum prófum í íslensku hjá 9. bekk. Áætlað var að allir 9. bekkir á landinu myndu taka prófið í morgun en tæknileg vandamál komu upp. Hluti nemenda gat því ekki tekið prófið.

Í tilkynningu á Facebook-síðu Menntamálastofnunar segir að netþjónn sem staðsettur er í Evrópu hafi ekki ráðið við álag vegna prófanna, sem tekin eru með rafrænum hætti. Í tilkynningunni segir að próftakan hafi gengið vel í sumum skólum en að annars staðar liggi kerfið niðri. Ákveðið verður á næstu dögum hvenær prófið verður lagt fyrir aftur.

Prófunum var seinkað í morgun í Stóru-Vogaskóla í Vogum á Vatnsleysuströnd. Að sögn Hálfdáns Þorsteinssonar, skólastjóra, voru vandræði með að komast inn í prófin. Þegar leið á morguninn gátu allir nemendur byrjað að taka prófin. Í Sæmundarskóla var tekin ákvörðun klukkan 10:30 um að leyfa nemendum í 9. bekk að fara heim. Þau höfðu ekki komist inn í prófin. Að sögn Eyglóar Friðriksdóttur, skólastjóra í Sæmundarskóla, þá komust nokkrir nemendur inn í prófin í morgun í smá tíma. Enginn nemendi í skólanum gat því lokið við prófið og ákveðið var að reyna ekki að leggja það fyrir aftur í dag heldur bíða fyrirmæla frá Menntamálastofnun um næstu skref.