Fá hvorki upptökur né kvittanir frá Klaustri

17.01.2019 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Landsréttur hafnaði í gær kröfu fjögurra þingmanna Miðflokksins um vitnaleiðslur og öflun sýnilegra gagna vegna Klausturmálsins. Í úrskurði Landsréttar kemur fram að beiðni þingmannanna beindist eingöngu að fyrirsvarsmönnum Klausturs þar sem upptökum úr myndavélum Alþingis hefur verið eytt og ekki eru til eftirlitsmyndavélar á vegum Dómkirkjunnar.

Samkvæmt úrskurði Landsréttar óskuðu þingmennirnir eftir því að forsvarsmenn Klausturs leggðu fyrir dóminn upptökur úr eftirlitsmyndavélakerfi staðarins og greiðslukortakvittanir frá kvöldinu þegar Bára Halldórsdóttir tók upp samtal þeirra á gamlan snjallsíma sinn.  

Í úrskurðinum kemur fram að þingmennirnir hafi talið nauðsynlegt að fá þessi gögn svo þau fari ekki forgörðum og að á þessum gögnum megi nánar ráða „hverjir hafi staðið að hljóðupptökunum,“ eins og það er orðað í úrskurðinum. 

Landsréttur segir að gerðar hafa verið ráðstafanir til að tryggja að myndupptökum verði ekki eytt.  Persónuvernd hafi óskað eftir þessum gögnum og forsvarsmaður veitingastofunnar gert ráðstafanir til að varðveita þær í sex mánuði.   Þá bendir dómurinn á að samkvæmt lögum um bókhald skuli bókhaldsgögn varðveitt hér á landi á tryggan og öruggan hátt í sjö ár frá lokun viðkomandi reikningsárs.  Ekki sé því hætta á að sönnunargögnin fari forgörðum áður en málið verður höfðað.

Þá segir dómurinn að það liggi fyrir að Bára hafi viðurkennt að hafa tekið upp samtöl þingmannanna og að fjölmiðlar hafi birt upptökurnar eftir að hún lét þá hafa þær. Þingmennirnir hafi því ekki sýnt fram á að aðgangur að gögnunum frá Klaustri sé nauðsynlegur til að undirbyggja ákvörðun um málsókn.  Beiðni þeirra var því hafnað og þeim gert að greiða Báru 300 þúsund krónur í málskostnað.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir í samtali við fréttastofu að nú fari Klausturmálið aftur í gang hjá þeim. Stofnunin hafði lýst því yfir að hún myndi bíða með vinnslu þess þar til niðurstaða Landsréttar lægi fyrir.  Hún segir að þetta verði unnið eins hratt og hægt er en hún efist um að það verði tekið fyrir á næsta stjórnarfundi sem er 31. janúar. „Málsframvindan fer bara eftir gagnaöflun,“ segir Helga.