Fá hreinar nálar en mega ekki neyta efnanna

15.04.2019 - 11:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, segir lög brotin í rekstri gistiskýlisins við Lindargötu. Þar séu rekin neyslurými þar sem fíklar geti neytt efna án þess að heilbrigðisstarfsmaður sé á staðnum eða aðrar aðstæður í samræmi við lög. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, segir málið byggt á misskilningi. Í gistiskýlinu hafi fólk aðgang að hreinum nálum og öðrum búnaði en ekkert sé hæft í því að fólki neyti efnanna innandyra.

Neysla áfengis- eða annarra vímuefna er ekki leyfð í gistiskýlinu við Lindargötu en áfengi er geymt fyrir gesti í læstum skáp yfir nótt. Tveir starfsmenn eru á vakt hverju sinni. Baldur var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann segist hafa farið sjálfur í gistiskýlið og kannað þar aðstæður eftir ábendingu frá starfsmanni. 

„Við þá skoðun mína kemur í ljós að þar eru greinilega rekin neyslurými. Það lýsir sér þannig að þar fá menn afhentan búnað til að sprauta fíkniefnum í æð. Það sem er afhent eru til dæmis sprautur, nálar, gúmmíslöngur til að herða á handlegg og bollar til að blanda fíkniefnin í og síðan er þeim vísað inn á eina af sjö snyrtingum hússins.“ 

Segir lög brotin í gistiskýlinu

Starfsmenn gistiskýlisins afhendi skjólstæðingum búnað eftir fyrirskipun yfirmanns og skjólstæðingum sé svo beint inn á salerni. Baldur segist óttast um öryggi skjólstæðinga og starfsmanna gistiskýlisins. Þarna séu lög brotin og fyllsta hreinlætis ekki gætt. Ekki sé farið eftir ströngum reglum um hvernig staðið skuli að svona þjónustu þar sem ekki sé heilbrigðisstarfsmaður á staðnum. Hann hefur óskað eftir aukafundi í borgarráði vegna málsins. 

„Það er ekki í boði á Lindargötu. Það er einfaldlega ekki hægt. Þarna eru tveir starfsmenn á vakt með frá 25 upp í 30 manns í húsinu á hverjum tíma. Ég er alls ekki að mæla gegn þessu en það þarf að standa rétt að þessu og að mínu mati, ég fullyrði það eins og ég sé þetta, að þarna er lögbrot í gangi og það er kannski ekki til að styðja við málstaðinn að velferðarsvið skuli stíga fram og fullyrða að þarna séu ekki neyslurými.“

Skaðaminnkun en ekki neyslurými

Heiða Björg Hilmisdóttir er formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Hún segir ásakanir Baldurs tilhæfulausar og byggðar á misskilningi. Skjólstæðingar gistiskýlisins hafi aðgang að hreinum búnaði en sé ekki undir neinum kringumstæðum gert kleift að neyta vímuefna í húsinu. 

„Þú getur nálgast nálar og klúta til þess að sótthreinsa þig, getur fengið hreinan búnað og getur svo skilað honum aftur. Þetta er skaðaminnkun og gert til þess að minnka hættu á smitsjúkdómum og veikindum hjá þeim hópi sem sem notar vímuefni í æð.“

Heiða segir umræðuna endurspegla að fólk skilji ekki hugmyndina á bak við skaðaminnkun sem snúist um að standa með einstaklingnum en ekki úthýsa honum. Hún fullyrðir það að í gistiskýlinu við Lindargötu sé ekki starfrækt neyslurými. 

„Það er rangt. Ég fullyrði það. Það eru engin neyslurými þarna og það er ekki leyfilegt að neyta vímuefna þarna. Við sýnum fólki virðingu og viljum tryggja þeirra heilbrigði og heilsu en við erum á engan hátt að hjálpa þeim að neyta.“

Hún segir að Baldur geti jafnframt ekki sóst eftir aukafundi í borgarráði þar sem hann sé varamaður. Hún sér ekki ástæðu til að bregðast við umræðunni og segir þess fullviss um að allt sé með felldu í gistiskýlinu. 

„Við höfum farið þangað og skoðað og þekkjum þá starfsemi mjög vel þannig að það er engin ástæða að bregðast við þessu. Þetta er byggt á misskilningi, “ segir Heiða. 

Neyslurými og gistiskýli fyrir vímuefnaeytendur

Frum­varp Svandís­ar Svavars­dótt­ur heil­brigðisráðherra sem kveður á um laga­heim­ild til að stofna og reka neyslu­rými hef­ur verið lagt fram á Alþingi. Und­ir­bún­ing­ur að opn­un neyslu­rým­is í Reykja­vík hef­ur staðið yfir um skeið. Fyr­ir ligg­ur að vel­ferðarsvið Reykja­vík­ur­borg­ar muni taka þátt í verk­efn­inu og í fjár­lög­um þessa árs eru 50 millj­ón­ir króna ætlaðar til þessa mál­efn­is. Heiða segir það hafa færst í aukana að langt leiddir vímuefnaneytendur sæki í gistiskýli borgarinnar. Því hafi borgarráð samþykkt að opna nýtt gistiskýli sérstaklega fyrir unga vímuefnaneytendur á Granda. Gistiskýlið opnar í vor en þar verður pláss fyrir 15 manns. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi