Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fá hlutlaust mat á vegi um Gufudalssveit

12.04.2018 - 16:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sveitarstjórn Reykhólahrepps hyggst fjármagna mat hlutlausra sérfræðinga á leiðum fyrir Vestfjarðaveg 60. Sveitarstjórn hafði áður samþykkt að nýr vegur um Gufudalssveit skyldi liggja um Teigsskóg. Sveitarstjórinn segir málið í uppnámi ef sérfræðingarnir komast að annarri niðurstöðu en sveitarstjórn.

Nýr vegur um Gufudalssveit hefur lengi verið á teikniborðinu, en deilt hefur verið um hvaða leið skuli fara. Sveitarstjórn Reykhólahrepps hafði tvo kosti til skoðunar; leið D2, með jarðgöngum undir Hjallaháls, sem Skipulagsstofnun lagði til vegna minnstra umhverfisáhrifa, og leið Þ-H um Teigsskóg, sem Vegagerðin telur besta og er talin mun ódýrari. 

Frestuðu skipulagsbreytingu

Sveitarstjórn samþykkti í mars að vegurinn skyldi liggja um Teigsskóg og átti skipulagsnefnd að afgreiða skipulagsbreytingu þess efnis á mánudag, en henni var frestað. Í staðinn var samþykkt að fengin yrði óháð verkfræðistofa til að meta kostina að nýju. Sveitarstjórn samþykkti svo á fundi í gær, með þremur atkvæðum gegn tveimur, að ganga til viðræðna um að fjármagna hlutlaust mat á leiðunum tveimur. 

Vonar að matið styðji veg um Teigsskóg

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, vonar að þetta komi ekki til með að seinka skipulagsferlinu. Haldnir verða aukafundir í næstu viku til að afgreiða skipulagstillöguna og koma málinu áfram. „Þetta verði bara gert hliðstætt og við bara vonumst til þess að þau gögn sem komi úr því mati treysti enn frekar þá ákvörðun sem sveitarstjórn tók á síðasta fundi, að fara þessa Þ-H leið.“

Gæti tafið málið ef niðurstaðan verður önnur

Ingibjörg segir rætt um að norskir sérfræðingar framkvæmi matið. „Í þessu felst að rýna gögn Vegagerðarinnar, hvort hún hafi lagt til besta kostinn. Vegna þess að það hefur komið fram gagnrýni á það,“ segir Ingibjörg. Hún telur að það hefði slæm áhrif á ferlið ef sérfræðingarnir kæmust að annarri niðurstöðu en Vegagerðin og sveitarstjórn, sem hafa ákveðið að vegurinn eigi að liggja um Teigsskóg. „Ef það kæmi í ljós, sem ég ætla bara rétt að vona ekki, þá myndi ég segja að málið væri komið í uppnám,“ segir Ingibjörg. 

Þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi samþykkt að kanna grundvöll þess að fjármagna matið segist Ingibjörg ekki vita hversu mikið það kostar. „Ég get ekki gert mér það í hugarlund núna. Það eru engin tilboð á borðinu og engin kostnaðaráætlun eins og staðan er í dag,“ segir hún.