Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fá hluta læknisþjónustu erlendis endurgreiddan

09.06.2016 - 21:57
Mynd með færslu
Halla Björk Erlendsdóttir, deildarstjóri hjá Sjúkratryggingum Íslands. Mynd: RÚV
Fólki stendur núna til boða að sækja sér læknisþjónustu erlendis og fá greiddan þann hluta hennar frá Sjúkratryggingum Íslands sem greiddur er fyrir sams konar aðgerðir hér á landi.

Fyrir viku tóku gildi nýjar reglur og því getur fólk nú orðið valið um það hvort það sækir sér heilbrigðisþjónustu hér á landi eða í öðrum aðildarríkjum EES og fengið endurgreiddan útlagðan kostnað sem svarar því að samsvarandi þjónusta hefði verið veitt hér á landi. Sjúkratryggingar vinna að gera aðgengilegar upplýsingar um það hversu mikið verður greitt fyrir hverja aðgerð. 

Halla Björk Erlendsdóttir, deildarstjóri alþjóðadeildar Sjúkratrygginga Íslands, segir að verið sé að undirbúa að setja upp vefsíðu þar sem fólk getur skoðað endurgreiðslutaxtana að einhverju marki. Ekki sé hægt að gefa tæmandi upplýsingar en með því að skoða síðuna fái fólk nokkra hugmynd um hve mikil endurgreiðslan verði. „Þar verða einnig tengiliðir fyrir önnur lönd þar sem fólk getur haft samband og fengið upplýsingar um hvað meðferðin myndi kosta í því landi sem þau velja sér,“ segir hún.

Sjúklingur fær þá endurgreitt frá Sjúkratryggingum í samræmi við það hversu mikið hann myndi þurfa að greiða fyrir sambærilega aðgerð eða þjónustu hér á landi.

„Þar af leiðandi gæti meðferðin verið aðeins dýrari úti og þá þarf sjúklingurinn að bera þann kostnað sjálfur. Í tilskipuninni er heldur ekki greiddur ferðakostnaður eða uppihald, þannig að sjúklingur ber þann kostnað líka,“ segir Halla Björk og  bætir við: „Við hvetjum fólk til að senda okkur erindi ef það hefur einhverjar spurningar. Við erum með sér netfang fyrir þetta og það er [email protected].“

Reglugerðin um endurgreiðslu fyrir læknisþjónustu erlendis var sett fyrir viku og  lögin í mars. Halla Björk segir að Sjúkratryggingar hafi beðið um lengri undirbúningstíma til að birta upplýsingar um málið þar sem fé hafði ekki fengist til verkefnisins. Reglugerðin fjalli að sjálfsögðu um framkvæmd laganna og því hafi stofnunin orðið að bíða eftir því að sjá hvernig hún liti út.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV