Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fá hærra verð en Íslendingar fyrir kvótann

21.07.2016 - 16:32
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Þriðja uppboðinu á fiskveiðikvóta í Færeyjum lauk í dag. Boðin voru upp 600 tonn af kvóta í Barentshafi og fengust að meðaltali 3,25 danskar krónur fyrir kílóið, sem nemur 59,05 íslenskum krónum.

Þetta er umtalsvert hærra verð en íslenska ríkið fær fyrir fiskveiðikvóta. Samkvæmt reglugerð um veiðigjöld fyrir næsta fiskveiðiár greiða útgerðir 11,09 krónur fyrir hvert kíló af þorski. Það er rúmlega fimm sinnum minna en Færeyingar fengu í uppboðinu í dag.

Uppboðin á fiskveiðikvóta í Færeyjum hófust í síðustu viku og þetta var þriðja uppboðið. Í fyrsta uppboðinu fengust 3,40 danskar krónur fyrir kílóið af botnfiski í Barentshafi. Það nemur 61,77 krónum íslenskum. Í öðru uppboðinu fengust 4,5 danskar krónur á kílóið. Það nemur 81,76 íslenskum krónum.

Hingað til hafa Færeyingar einungis boðið upp kvóta í rússneska hluta Barentshafs. Það er kostnaðarsamt að gera út í Barentshafi, enda þarf að sigla langar leiðir til að komast á miðin. Þetta er ekki allskostar sambærilegt við íslenska kvótann, og því varasamt að draga of miklar ályktanir af samaburðinum.

Tuttugu og tvisvar sinnum verðmætari
Færeyingar hafa einnig boðið upp 3.500 tonn af makrílkvóta og fengu 3,52 danskar krónur á kílóið, sem nemur 63,93 íslenskum krónum. Í reglugerð um veiðigjald á Íslandi á næsta fiskveiðiári kemur fram að útgerðir greiða 2,78 íslenskar krónur fyrir kílóið af makríl. Það er 22 sinnum minna heldur en Færeyingar fá samkvæmt uppboðinu.

Makrílkvóti Íslands fyrir árið 2016 er 147.824 tonn. Við það bætast 3.825 tonn frá síðasta ári. Ef hann væri metinn á sama verði og Færeyingar fengu úr uppboðinu væri hann um það bil 9,7 milljarða króna virði.

Á Íslandi greiða útgerðir bæði almennt og sérstakt veiðigjald. Á fiskiveiðiárinu 2014/2015 var heildarupphæð þessara gjalda um það bil 7,7 milljarðar króna. Það er lægra en fengist fyrir makrílkvótann einan og sér, ef miðað er við tölurnar úr makríluppboði Færeyja.

Tilraun í Færeyjum
Þetta nýja fyrirkomulag í Færeyjum er tilraun. Einungis færeysk fyrirtæki mega bjóða í kvótann og það er skilyrði að aflanum sé landað í Færeyjum. Kvótinn er boðinn upp til eins árs. Með þessu er landsstjórnin í Færeyjum að efna eitt af kosningaloforðum vinstri flokkanna.

Útgerðarmenn í Færeyjum hafa látið í sér heyra í fjölmiðlum í Færeyjum og gagnrýnt uppboðið. Þeir telja að verið sé að mismuna fyrirtækjum, því ekki greiða allir sama verðið fyrir fiskinn. Einnig telja þeir fyrirkomulagið valda óstöðugleika í greininni og gera þeim erfitt um vik að gera áætlanir fram í tímann.

Högni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, segist ánægður með uppboðin, einkum þá staðreynd að þeir sem hafa verið háværastir í gagnrýni á fyrirkomulagið hafa samt boðið í kvótann á uppboði.

Högni og aðrir ráðamenn í Færeyjum vonast til að þessi tilraun með uppboðskerfi skapi grundvöll að nýju fiskveiðistjórnunarkerfi. Og að uppboðsformið leiði til að útgerðirnar skapi sem mest verðmæti úr þeim fiski sem þær hafa keypt réttinn til að veiða.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV