Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fá ekki að reka Bullungu sem náttúrulaug

05.05.2018 - 15:24
Mynd með færslu
 Mynd: Kristrún Sigurfinnsdóttir - RÚV
Laugarvatn Fontana, sem rekur heilsulind á Laugarvatni, fær ekki leyfi til að reka laugina Bullungu sem náttúrulaug. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem staðfesti þar með ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands þess efnis.

Í úrskurðinum kemur fram að Fontana hafi bætt jarðvarmalauginni Bullungu við starfsemi sína árið 2013. Heilbrigðiseftirlitið gerði í framhaldinu athugasemdir við að ekki hefði verið sótt um undanþágu um að nota ekki sótthreinsiefni í baðvatnið.

Eftirlitið benti á það gæti sætt um slíka undanþágu ef reglubundnar sýnatökur skiluðu jákvæðum niðurstöðum. Þær fóru fram á árunum 2014 og 2015 en niðurstöðurnar sýndu að gæði vatns í lauginni væru óviðunandi.   

Rekstraraðilar Fontanta óskuðu þá eftir því að Bullunga yrði skilgreind sem baðstaður í náttúrunni.  Heilbrigðiseftirlit Suðurlands lagðist gegn því með bókun á fundi hálfu ári seinna og í júní 2016 tilkynnti eftirlitið að heilbrigðisnefnd Suðurlands hefði hafnað umsókninni. 

Í kæru Fontana var því haldið fram að ógilda bæri ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar þar sem hún hefði verið haldin verulegum form- og efnisannmörkum. Heilbrigðisnefndir flokki nú ýmsar laugar sem séu sambærilegar Bullungu sem náttúrulaugar. Og að svo virtist sem synjun nefndarinnar hafi eingöngu stuðst við þá röksemd að verið væri að blanda saman rekstri sund- og baðstaðar annars vegar og náttúrulaugar hins vegar. Fontana væri líklega eini staðurinn á landinu þar sem hægt væri að finna náttúrulegar laugar og svo hefðbundnar laugar.

Heilbrigðisnefnd Suðurlands sagði í svari sínu til úrskurðarnefndarinnar að Bullunga væri að öllu leyti manngerð, það ætti meðal annars við um dælingu baðvatnsins. Það þjónaði almannahagsmunum að fram færi sótthreinsun baðvatns í Bullungu eins og öðrum laugum Fontana enda baðstaður með mikla aðsókn allt árið. 

Úrskurðarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að það hafi verið rétt af heilbrigðisnefnd Suðurlands að hafna umsókninni.  Hún sé að öllu leyti manngerð og falli því ekki undir skilgreiningu á náttúrulaug.  Þá verði ekki annað séð en að nægar upplýsingar hafi legið fyrir þegar ákvörðunin var tekin og að málsmeðferðin hafi verið í samræmi við lög. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV