Fá bætur vegna skorts á akstursþjónustu

30.07.2018 - 10:58
Vesturbyggð Patreksfjörður
Patreksfjörður. Mynd úr safni. Mynd: Jóhannes Jónsson
Bæjarráð Vesturbyggðar samþykkti nýverið að greiða aðstandendum aldraðrar fatlaðrar konu 4,5 milljónir króna í sátt vegna aksturþjónustu fyrir fatlað fólk sem að konan fékk ekki á árinum 2012-2017. Konan, sem hét Sigríður Guðbjartsdóttir, lést síðasta haust.

Áralöng barátta

Synir Sigríðar börðust fyrir því í um fimm ár að móðir þeirra fengi aksturþjónustu frá sveitarfélaginu að lögheimili hennar á Láganúpi í Kollsvík í Vesturbyggð, um 60 kílómómetra frá Patreksfirði þar sem Sigríður dvaldi. Málið þvældist um í kerfinu og að endingu fékk Sigríður akstursþjónustu að félagsheimili aldraðra í bænum en ekki á aðra áfangastaði.

Úrskurðarnefnd staðfesti synjun Vesturbyggðar

Úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurðaði að synjun Vesturbyggðar um frekari akstur en að félagsheimilinu stæði en mæðginin kærðu það til Umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður taldi að úrskurðarnefndin hefði ekki tekið nægilegt mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk en þar segir að gera skuli árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingar geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, því hentar gegn viðráðanlegu gjaldi.

Synir Sigríðar gerðu kröfu um 12 milljónir króna bætur en gerðu svo sveitarfélaginu sáttartilboð sem nam 4,5 milljónum.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi