Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fá 4.394 krónur á tímann fyrir heimaþjónustu

23.04.2018 - 09:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
95 ljósmæður í heimaþjónustu víða um land leggja niður störf frá og með deginum í dag. Þær ætla ekki að taka til starfa á ný fyrr en samningur við Sjúkratryggingar Íslands um greiðslur til þeirra verður undirritaður. Þær hafa unnið samningslausar sem verktakar síðan í febrúar og fengið tæpar 4.400 krónur á tímann.

Ellen Bára Valgerðardóttir, ljósmóðir á Landspítala, er ein þeirra 95 ljósmæðra í heimaþjónustu sem leggja niður störf í dag. „Við höfum verið samningslausar við Sjúkratryggingar Íslands síðan í febrúar á þessu ári. Þá var samið við Sjúkratryggingar um hækkun sem var samþykkt fyrir páska. Samningurinn var sendur inn í ráðuneyti til samþykktar og þar liggur þetta var enn þá og ekkert hefur heyrst frá þeim. Við erum búnar að vinna samningslausar síðan í febrúar og getum þar af leiðandi lagt niður störf þegar við viljum,“ segir Ellen Bára.

Segir sorglegt að staðan sé þessi

Ljósmæður í heimaþjónustu fá tæpar 4.400 krónur í laun á tímann sem verktakar og vinna jafnt á virkum dögum, um helgar og á helgidögum. „Þetta er náttúrulega alveg hræðilega sorglegt að þetta þurfi að fara svona. En eitthvað verðum við að gera til að vekja athygli á þessu af því að þetta er mjög góð þjónusta og ódýr fyrir ríkið því að við erum að erum að fá 4.394 krónur á tímann.“

Telur að álag á foreldra og spítalann aukist

Foreldrar fá heimaþjónustu ljósmæðra í fimm til sjö skipti eftir að heim er komið af fæðingardeild. Ellen segir ljóst að foreldrar missi af ýmsu mikilvægu nú þegar þær hafi lagt niður störf. „Þetta er ýmislegt sem við gerum í heimaþjónustu sem annars væri gert á spítalanum, sem væri þá mun kostnaðarsamara að hafa þær þar inni heldur en heima.“ Hún segir að líklega verði meira álag á foreldra þar sem þeir þurfi að fara með nýbura sína á spítala, vegna mála sem annars væri hægt að leysa út heima með ljósmóður. 

Meðal þess sem ljósmæður sinna í heimaþjónustu er fræðsla og aðstoð við brjóstagjöf. Þá fylgjast þær með líkamlegri heilsu móður, svo sem blæðingum frá legi. Ljósmæður fylgjast einnig grannt með andlegri heilsu mæðra. „Við höfum einnig eftirlit með gulu hjá nýburum og tökum blóðprufur ef okkur finnst þurfa og fylgjumst með þyngd,“ segir Ellen Bára. Þá daga sem heimaþjónustan stendur yfir geta foreldrar hringt í sína ljósmóður ef eitthvað tengt fæðingunni eða nýburanum bjátar á. „Það sparar gríðarlega vinnu fyrir Landspítala að þurfa ekki að svara þessum símtölum,“ segir hún. 

Aðgerðirnar komu ráðherra á óvart

Haft er eftir Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, í Morgunblaðinu í dag, að aðgerðir ljósmæðra hafi komið á óvart og að hún hafi fyrst heyrt af þeim í fjölmiðlum í gær. Bera þurfi samninginn undir Landspítala og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri áður en hægt verði að ganga frá honum.