Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

F- og M-listar brutu fjarskiptalög með SMS-um

29.12.2017 - 15:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flokkur fólksins og Miðflokkurinn brutu gegn fjarskiptalögum með óumbeðnum SMS-sendingum til kjósenda fyrir Alþingiskosningarnar í október. Þetta er niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar sem birti í dag tvær ákvarðanir þess efnis á vef sínum.

Flokkur fólksins sendi 80.763 sms-skilaboð 27. október, daginn fyrir kjördag, með hvatningu um að kjósa flokkinn. Í skilaboðunum stóð: „Ertu med kosningarett? – Nyttu rettinn! Afnemum fritekjumark og haekkum skattleysismork. Kaer kvedja! Flokkur folksins X-F.“

Miðflokkurinn sendi 57.682 skilaboð á kjördag, 28. október. Í skilaboðunum stóð annars vegar: „Skyr framtidararsyn fyrir Island og kraftur og thor til að koma henni í framkvaemd. X-M. Vid stondum við storu ordin. Midflokkurinn.“ Og hins vegar: „I dag er fagur dagur, Ja godur við finnum þad. Vertu Memm settu X við M“

Báðir flokkarnir nýttu sér þjónustu fyrirtækisins 1819 við sendingarnar. 36 kvartanir bárust Póst- og fjarskiptastofnun vegna sendinga Flokks fólksins og 35 kvartanir vegna sendinga Miðflokksins. Póst- og fjarskiptastofnun kemst að þeirri niðurstöðu að báðir flokkar hafi með þessu brotið gegn ákvæði fjarskiptalaga um óumbeðin fjarskipti, sem kveður á um að notkun rafrænna skilaboða til markaðssetningar sé einungis heimil þegar áskrifandi hafi veitt samþykki sitt fyrir því fyrir fram að fá slík skilaboð.

Miðflokkurinn viðurkenndi sendingarnar

Lögmaður Miðflokksins svaraði erindi Póst- og fjarskiptastofnunar og gekkst við sendingunum en sagði forsvarsmenn flokksins hafa treyst því að fagfólkið hjá fyrirtækinu 1819 mundi tryggja að engar sendingar bærust til fólks sem væri bannmerkt í símaskrá.

Fulltrúi Póst- og fjarskiptastofnunar benti lögmanninum þá á að málið snerist ekki bara um það – kvartanirnar hefðu ekki bara snúið að sendingum í bannmerkt númer, heldur að allar sendingarnar hafi falið í sér brot á ákvæði fjarskiptalaga um óumbeðin fjarskipti. Lögmaðurinn kaus að svara því ekki frekar.

Kenna Halldóri og Pétri um allt saman

Flokkur fólksins skellti skuldinni hins vegar alfarið á fyrsta og annan mann á lista í Norðausturkjördæmi, Halldór Gunnarsson og Pétur Einarsson. Í tölvupósti frá framkvæmdastjóra flokksins til Póst- og fjarskiptastofnunar sagði að tvímenningarnir hefðu séð um samskiptin við 1819 og tölvupóstsamskipti þeirra við fyrirtækið voru látin fylgja með. Þar fullyrðir Halldór að ákvörðunin um sendingarnar hafi verið tekin fyrir á fundi með oddvitum flokksins og stjórnarmönnum hans og meirihluti stjórnar væri á bak við hana.

Í tölvupósti framkvæmdastjórans til Póst- og fjarskiptastofnunar er þessari fullyrðingu Halldórs hafnað. „Það skal ítrekað að Halldór Gunnarsson og Pétur Einarsson bera fulla og óskoraða ábyrgð á þessum sms sendingum og því ekki rétt sem fram kemur að Halldór Gunnarsson hafi haft meirihluta stjórnar á bakvið sig þegar hann tók þá ákvörðun að senda þessi skilaboð,“ segir í svari framkvæmdastjórans, sem fullyrðir einnig að formaðurinn Inga Sæland hafi stöðvað sendingarnar þegar 22 þúsund SMS höfðu farið út en Halldór hafi gefið fyrirmæli um að þeim skyldi haldið áfram.

Gerðu ekki nóg til að stöðva sendingarnar

Í niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar segir að í gögnum málsins megi sjá að framkvæmdastjóri Flokksins hafi sjálfur átt í samskiptum við 1819 um sendingarnar 27. október. „PFS telur að í þeim gögnum sem Flokkur fólksins hefur lagt fram komi ekki fram að yfirstjórn flokksins hafi gert nægilegar ráðstafanir til þess að stöðva sendingar ef það er rétt að sendingarnar hafi það ekki verið samþykktar eftir réttum leiðum innan flokksins,“ segir í niðurstöðunni.

„PFS telur að ef það var ótvíræður vilji yfirstjórnar flokksins að stöðva umræddar sendingar þá hefði þurft að lýsa þeim vilja með afgerandi hætti og tryggja að fleiri sendingar færu ekki út. Það verður að teljast á ábyrgð flokksins þegar stjórnarmaður hans óskar eftir þjónustu sem þessari í nafni flokksins og ekki liggja fyrir gögn um afgerandi aðgerðir yfirstjórnar flokksins til að afstýra umræddum sendingum. Ljóst er þó af svörum flokksins að yfirstjórn flokksins var kunnugt um sendingarnar áður en þær höfðu allar verið sendar,“ segir þar enn fremur. Sendingarnar séu því á ábyrgð flokksins.

Brýnt fyrir fjarskiptafyrirtækjum að kynna sér reglur

Póst- og fjarskiptastofnun tekur fram í báðum ákvörðunum að þótt sendingarnar hafi verið á ábyrgð flokkanna tveggja sé ástæða til að árétta að fyrirtæki sem starfi í þessum geira kynni sér til hlítar allar reglur sem gildi um markaðssetningu af þessu tagi og tryggi meðal annars að engin skilaboð af þessum toga berist í bannmerkt númer.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV