
Eyþór Arnalds gestafyrirlesari hjá Sigmundi
Þetta kemur fram á auglýsingu sem Sigmundur Davíð birti á Facebook-síðu sinni. Fundurinn verður í Rúgbrauðsgerðinni á morgun, hann hefst klukkan 11 og verður öllum opin.
Eyþór mun í innleggi sínu meðal annars fjalla um hvernig tækniþróun og ný tækifæri sem henni fylgja muni umbylta daglegu lífi fólks á komandi árum. Sigmundur Davíð mun sjálfur halda erindi sem nefnist Stjórnmál á áhugaverðum tímum en þar segir hann að stjórnmál séu að taka grundvallarbreytingum.
Sigmundur sagði í samtali við fréttastofu að hann hefði ákveðið að stofna Framfarafélagið þar sem Alþingi væri ekki góður vettvangur til að koma málum í framkvæmd eða efna til frjórra umræðu. Og tók fram að félagið væri ekki stofnað sem nýr stjórnmálaflokkur. Það myndi þó eflaust þróast með tímanum og láta til sín taka með ýmsum hætti.
Í færslu sem hann skrifaði á Facebook í vikunni sagði hann Framfarafélagið vera lið í því að losna við kerfisræði, losna við pólitískan rétttrúnað og hvetja aftur til raunverulegrar lýðræðislegrar umræðu.
Fundarstjóri verður Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna. Hún sagði eftir Alþingiskosningarnar í haust að það gætti skoðanakúgunar í Framsóknarflokknum. Ekki væri um frjáls skoðanaskipti að ræða. Þar sagðist hún geta staðfest að það væri fótur fyrir því að fólk hefði verið hvatt til að strika út nafn Sigmundar Davíðs á kjörseðlinum.