Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Eykur framlög til skapandi greina

24.11.2013 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisráðherra segir að vandinn sem við sé að stríða í heilbrigðiskerfinu sé afleiðing af gegndarlausum og blóðugum niðurskurði síðustu ríkisstjórnar. Hann segir að núverandi ríkisstjórn sé í raun að auka framlög til heilbrigðismála, rannsókna og skapandi greina.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem haldinn er á Selfossi um helgina að fyrstu mánuðir nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefðu einkennst af mikilli umræðu um heilbrigðismál.

Hann segir bága stöðu heilbrigðismála núna vera afleiðingar af frestunaraðgerðum síðustu ríkisstjórnar. Vandinn liggi ekki í fjárlögum ársins 2014, hann liggi í síðustu fjórum árum. „En við erum að snúa þeirri þróun við.“

Sigmundur Davíð segir að ranglega sé fjallað um erfiða stöðu í heilbrigðismálum eins og það sé sök núverandi ríkisstjórnar. „Hvað gerði síðasta ríkisstjórn? Hún lokaði heilum spítala. Það var varla sagt frá því í fréttum. Á meðan hér er hamrað á vandanum í heilbrigðiskerfinu og hann tengdur núverandi ríkisstjórn, í stað þess að setja hann þar sem hann á heima: Á ranga forgangsröðun á síðasta kjörtímabili og endalausan niðurskurð í grunnþjónustunni. Niðurskurð sem við erum núna að snúa við og vinda ofan af.“

Sigmundur Davíð segir að ríkisstjórnin hafi tekið þá ákvörðun strax í upphafi kjörtímabilsins að byrja á erfiðu málunum og vinda ofan af skuldasöfnun síðustu ríkisstjórnar og mistökum fortíðar. 

Merki þessa mætti sjá í frumvarpi nýrra fjárlaga. Engu að síður sé varla hægt að tala um niðurskurð í fjárlögum miðað við það sem búast hefði mátt við. „Það er til dæmis ekki verið að skera niður í heilbrigðisþjónustunni, þar er þegar að verða viðsnúningur, og það er raunar ekki heldur hægt að tala um að það sé verið að skera niður á sviðum þar sem við erum gagnrýnd fyrir að skera niður að undanförnu. Ég nefni sem dæmi rannsóknir, kvikmyndagerð, skapandi greinar.“

Upphæðin sé kannski heldur lægri en ef miðað væri við fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar sem Sigmundur segir að hafi í raun ekki verið áætlun, heldur kosningaplagg. „Ef við lítum á reynslu allra undanfarinna ára, 2012, 2011, 2010 og förum aftur fyrir efnahagshrunið, 2007, 2006, þá erum við að auka verulega framlög til þessara greina; til rannsókna, til skapandi greina, og að sjálfsögðu erum við að snúa þróuninni við hvað varðar undirstöðurnar.“

Sigmundur Davíð segir að umræðan um sjávarútvegsmál sé á villigötum og tiltók þar sérstaklega þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að afnema sérstaka veiðigjaldið, sem stjórnarandstaðan hafi gagnrýnt harkalega og talað um milljarða tap fyrir ríkissjóð. „Sjávarútvegurinn mun skila meiri tekjum núna í heildina heldur en nokkurn tíma í sögu landsins og samt leyfa menn sér að koma fram og halda því fram að þessi ríkisstjórn sé á einhvern hátt að gefa eftir tekjur.“