Eyjafjallajökull frumsýnd

Mynd með færslu
 Mynd:

Eyjafjallajökull frumsýnd

29.09.2013 - 21:05
Eyjafjallajökull vekur enn athygli í Evrópu, rúmum þremur árum eftir að hann lamaði flugsamgöngur í álfunni.

Þótt fæstir geti borið nafnið fram fékk það svo mikla ókeypis auglýsingu að ekki einungis svissnesk úrategund ber nú nafnið Eyjafjallajökull heldur er Eyjafjallajökull líka nafnið á nýjustu gamanmynd Frakka, sem frumsýnd verður í vikunni. 

Dany Boon er vinsælasti leikari Frakka um þessar mundir með milljarða laun á Hollywood vísu fyrir hverja mynd sína. Til að draga athygli að nýjustu afurð sinni sem beðið er með eftirvæntingu og frumsýnd verður í vikunni, datt honum það snjallræði í hug að skýra gamanmyndina nafni sem enginn gæti borið fram eins og vel er hamrað á í kynningu myndarinnar sem ber nafnið Eyjafjallajökull.

Kvikmyndin Eyjafjallajökull fjallar ekki um eldgosið heldur afleiðingar þess. Fráskilið par, sem hittist óvart á ný eftir 20 ár. Þau þola ekki hvort annað en samt neyðast þau til að ferðast saman landleiðina til Grikklands í brúðkaup dóttur sinnar þegar flugvél þeirra nauðlendir vegna öskufalls frá Íslandi. Átök þeirra á leiðinni verða bæði skondin og mikil, og svo sem ekki í fyrsta sinn sem öskufall frá Íslandi veldur miklum átökum á meðal Frakka. Því samkvæmt útbreiddri sögukenningu náðu Móðuharðindin og kuldakastið af þeirra völdum alla leið til Frakklands og hrundu jafnvel af stað sjálfri frönsku byltingunni. 

Tengdar fréttir

Mannlíf

Lag Elízu Newman í Eyjafjallajökli

Erlent

Rómantíska kvikmyndin „Eyjafjallajökull“