Eyja á Vanúatú rýmd öðru sinni vegna eldgoss

28.07.2018 - 06:26
Erlent · Hamfarir · eldgos · Vanúatú · Eyjaálfa
epa06912972 A handout photo made available by the Vanuatu Red Cross Society on 27 July 2018 shows volcanic ash on Ambae Island, Vanuatu, 21 July 2018. Thick volcanic ash billowing across the Vanuatuan island of Ambae has prompted the evacuation of its
 Mynd: EPA-EFE - VANUATU RED CROSS
Verið er að rýma eyjuna Ambae, sem tilheyrir eyríkinu Vanúatú, öðru sinni á skömmum tíma vegna eldgoss. Öskugos hófst í eldfjallinu Manaro Voui, stærstu eldstöð Vanúatú, fyrir nokkrum dögum. Í fyrstu var talið að um minniháttar eldsumbrot væri að ræða, en eldvirknin hefur færst stöðugt í aukana alla síðustu viku og í gær, föstudag, var ákveðið að ekki yrði lengur við unað og öllum skipað að búa sig til brottfarar hið fyrsta.

Rýmingin er ekki valkvæð heldur skylda, og verður fólki komið fyrir á nærliggjandi eyjum þar til um hægist. Um ellefu þúsund manns bjuggu á Ambae þegar gos hófst í Manaro Voui í september 2017. Gígur eldfjallsins er nokkurn veginn á eyjunni miðri, en hún er um 500 ferkílómetar að flatarmáli. Þegar gosið magnaðist ákváðu stjórnvöld á Vanúatú að flytja alla íbúa á brott, í fyrsta sinn í sögunni. Þegar sljákka tók í eldstöðinni byrjaði fólk að tínast heim aftur, en dvölin á heimaslóðum ætlar að reynast styttri en margur ætlaði. 

Manaro Voui er mjög virk eldstöð og er gosið nú það þriðja á þessu ári. Í öðru gosinu í vor var fólk hvatt til að forða sér frá eyjunni, en þá var fólki í sjálfsvald sett, hvort það vildi fara eða vera.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi